Vefþjóðviljinn 52. tbl. 20. árg.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að íslenskur landbúnaður þurfi 14 milljarða árlega ríkisstyrki, strangt innflutningsbann sér til verndar og háa tolla á það litla sem leyfilegt er að flytja inn.
Stuðningur við innlenda matvælaframleiðslu snýst hins vegar um að spara gjaldeyri. Nýta auðlindir landsins til að búa til gæðavöru og selja hana á samkeppnishæfu verði. Stuðninginn mætti allt eins kalla neytendastyrki enda er álagning stórverslana meiri á innfluttar vörur en þær innlendu.
Meginröksemd hans er því að með því að verja óskaplegum fjármunum úr ríkissjóði, spilla fyrir duglegum bændum og taka ráðin af neytendum sparist erlendur gjaldeyrir.
Þetta kemur á óvart því engin ríkisstjórn hefur eytt meiri erlendum gjaldeyri í innflutning á landbúnaðarafurðum en einmitt ríkisstjórn Sigmundar Davíðs.
Hér er átt við stuðning ríkisstjórnarinnar við innkaup á jurtaafurðum á bílaflotann; korn-etanóli til blöndunar í bensín og matarolíum til blöndunar í Dieselolíu.
Bensínlítrinn kostar nú um 40 krónur á heimsmarkaði. Ríkisstjórnin styður innflytjendur hins vegar um 70 krónur fyrir hvern lítra sem þeir flytja inn af etanóli og blanda í bensínið eða jurtaolíu sem blandað er í Diesel. Það er gert með því að veita innflytjendum um 70 króna skattaívilnun af hverjum lítra.
Í valdatíð ríkisstjórnarinnar hafa því milljarðar runnið úr landi – í erlendum gjaldeyri – til innkaupa á þessu eldsneyti sem eykur eyðslu í bílvélum, fjölgar ferðum á bensínstöðvar og eykur þar með innflutning eldsneytis. Skógar eru ruddir og votlendi þurrkað til að rýma fyrir ræktun þeirr matjurta sem þarf til að framleiða þetta eldsneyti.
Rétt er að taka fram að lögin sem gera þetta að verkum voru sett af vinstri stjórninni rétt fyrir síðustu kosningar og Sigmundur Davíð hefur sjálfur lýst því yfir að réttast væri að lagfæra þetta atriði.
Fjórir stjórnarþingmenn, Sigríður Á. Andersen, Frosti Sigurjónsson, Willum Þór Þórsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafa lagt fram frumvarp í tvígang á þessu og síðasta þingi með það að markmiði að afnema þessi ólög en málið ekki komist á dagskrá.