Laugardagur 20. febrúar 2016

Vefþjóðviljinn 51. tbl. 20. árg.

Eins og menn vita hafa Birgitta Jónsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson þingmenn Pírata lýst því yfir opinberlega að þau fari ekki í framboð við næstu þingkosningar. Birgitta hefur verið sérstaklega afgerandi með þetta. Vegna þessara yfirlýsinga þeirra sagði Jón Þór Ólafsson af sér þingmennsku í fyrra, svo varaþingmaður hans hefði þingreynslu þegar kæmi af því að þau Birgitta og Helgi Hrafn hættu, við næstu kosningar.

Nýlega sagðist Birgitta Jónsdóttir svo vera hætt við að hætta. Hún gaf þá skýringu að ef hún hætti þá gæti Frjálshyggjufélagið tekið Pírata yfir, eða eitthvað í þá veru.

Nú um helgina var Birgitta í útvarpsviðtali. Þar talaði hún um að það yrði að verða auðveldara fyrir þingmenn að fara út í atvinnulífið eftir þingmennsku. Á Íslandi þyrfti fólk „að treysta á sinn flokk að fá starf að þingsetu lokinni.“

Fleira markvert kom fram hjá Birgittu í þættinum. Hún sagði að stjórnmál væru ekki vinsæl hjá ungu fólki. Ein skýringin á því gæti verið að orðið „þingsköp“ væri hugsanlega „dónalegt“.  

Það er auðvitað mjög sennileg skýring. Alveg jafn sennileg og sú að Birgitta Jónsdóttir verði að halda áfram þingmennsku svo Frjálshyggjufélagið taki ekki Pírata yfir. Birgitta mun því verða vera áfram alþingismaður næstu árin, þvert gegn löngun sinni, til að hindra að Frjálshyggjufélagið nái Pírataflokknum á sitt vald, sem gæti gerst hvenær sem er, vegna þess að fólk er svo feimið við þingsköpin að það fylgist ekki nógu vel með. En jafnvel áratuga þingseta Birgittu mun ekki hindra það óumflýjanlega. Frjálshyggjufélagið nær Pírataflokknum undir sig. Enginn má sköpum renna.