Miðvikudagur 10. febrúar 2016

Vefþjóðviljinn 41. tbl. 20. árg.

Eins og menn vita hefur Kári Stefánsson forstjóri og læknir staðið fyrir átaki þar sem fólki gefst kostur á að leggja nafn sitt við þá kröfu að ríkið verji framvegis „11% af vergri landsframleiðslu til reksturs heilbrigðiskerfisins“. Af fréttum að ráða hefur um fjórði hver kjósandi lagt nafn sitt við kröfuna.

Margt er hægt að segja um þessa söfnun og kröfuna sem menn leggja nafn sitt við. Auðvitað er einfalt að spyrja hversu margir af þeim sem skrifa undir hafi hugmynd um hvað „verg landsframleiðsla sé“ eða hvað 11% hennar væru margar krónur nú í ár. Eða á næsta ári. Sjálfsagt vita fæstir þátttakenda neitt um það, en hafa samt krafist þess að framvegis verði 11% af vergri landsframleiðslu varið til „reksturs heilbrigðiskrefisins“. Og þar með einnig að þau ár sem verg landsframleiðsla dregst saman verði dregið úr framlögum til „reksturs heilbrigðiskerfisins“.

En þótt auðvelt sé að segja að fæstir viti hvað verg landsframleiðsla sé, eða hversu mikið hið opinbera verji á hverju ári til heilbrigðismála, þá þýðir það ekki að menn séu bara að tala út í loftið. Þeir sem eyða níu sekúndum eða svo af ævi sinni til að taka afstöðu í söfnun Kára eru ekki að hugsa um landsframleiðslu og jafnvel ekki verga, þeir eru bara að segja að það eigi að setja meiri peninga í heilbirgðismál. Kári hefði alveg eins getað nefnt tíu, tólf eða átján prósent af vergri landsframleiðslu og jafn margir hefðu skrifað undir.

Hver vill ekki gott heilbrigðiskerfi? Hver vill ekki meiri pening í heilbrigðiskerfið? Hver getur ekki hugsað sér eitthvað í ríkisrekstrinum sem mætti fjúka, svo setja mætti pening í heilbrigðiskerfið? Sendiráð, listamannalaun, landbúnaðarframleiðslu, lokaverkefni Almars, laun þingmanna, allir geta nefnt eitthvað sem þeim finnst mega missa sín. Og ef það dugar ekki þá er hægt að fjármagna allt með því að skattleggja sjávarútveginn.

Þvert á það sem margir halda þá aukast opinber framlög til heilbrigðismála ár frá ári. Kostnaðurinn við rekstur þess líka. Það verður aldrei hægt að veita bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Það er raunar hvergi í veröldinni hægt. Það er alltaf hægt að ímynda sér betri þjónustu en veitt er hverju sinni. Öll ríki verða að sníða sér stakk eftir vexti í heilbrigðismálum eins og öðrum.

Flestir þurfa einhvern tíma á læknisþjónustu að halda og ef ekki þeir sjálfir þá einhverjir þeirra nánustu. Þó ekki væri nema af þessum ástæðum verður alltaf mikill stuðningur við „betra heilbrigðiskerfi“. Auk þess vilja flestir sæmilegir menn að meðborgararnir fái nauðsynlega læknishjálp í nauðum. Þess vegna verður alltaf hægt að fá stuðning við meiri framlög til heilbrigðismála.

En þeir sem hafa áhyggjur af því að of fáar krónur renni frá hinu opinbera til heilbrigðismála ættu að skoða með opnum huga þær leiðir sem færar eru til að nýta þær krónur sem best. Þar á meðal hvort opinber rekstur sé alltaf sá skynsamasti. Það getur alveg farið saman að nýta kosti einkarekstrar, án þess að hverfa frá því að allir geti fengið nauðsynlega læknishjálp óháð efnahag sínum. En margir vilja alls ekki heyra á þetta minnst. Þeir vilja bara meiri peninga úr ríkissjóði til ríkisstofnana.