Vefþjóðviljinn 24. tbl. 19. árg.
Vefþjóðviljinn er 19 ára í dag.
Á hverjum degi þessi 19 ár hefur hann reynt að leggja inn gott orð fyrir hinn almenna mann, að hann ráði sér sjálfur. Hann ráðstafi tekjum sínum og eignum sjálfur. Lestir hans séu ekki lögreglumál. Hann fái er reka sína vínbúð eða útvarpsstöð í friði fyrir ríkinu.
Það er á brattann að sækja. Ríkisbáknið er orðið svo stórt og hagsmunirnir svo ríkir að viðhalda því að það verður engu tauti við komið. Það er sama á hverju dynur, aldrei skal ríkisstofnun lögð niður, að minnsta kosti ekki nema að nafninu til og verkefnin færð annað.
Tvö nýleg dæmi má nefna. Starfslaunum rithöfunda er úthlutað á sérlega óvandaðan hátt til manna sem hafa ekki tíma til ritstarfa vegna þátttöku í þjóðmálaumræðunni. Verður þessu styrkjakerfi lokað? Ónei. Annar sjóður undir hatti 90 manna Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands úthlutar fjármunum almennings í skýjaborgir á borð við stjörnuspekiforrit fyrir fótboltamenn og útrás töframanna. Verður þetta apparat slegið af? Alls ekki.
Þeir sem vinna á þessum opinberu stofnunum eða fá ríkisstyrkina hafa mikla persónulega hagsmuni af því að viðhalda ruglinu. Rithöfundur á starfslaunum getur réttlætt það fyrir sjálfum sér og sínu heimilisbókhaldi að eyða nokkrum vikum á ári í að tala fyrir mikilvægi starfslaunanna. Venjulegur launamaður greiðir kannski nokkra hundraðkalla í skatta í listamannasjóðinn. Varla fer hann að eyða sumarfríinu eða öllum kvöldum í að berjast gegn svo léttvægum hagmunum?
Hér eru líka gjaldeyrishöft og fjármálakerfið nánast eins og það leggur sig á leið í fang ríkisins. Boð og bönn hafa aldrei verið víðtækari, lög og reglur aldrei fleiri, hvers kyns eftirlit aldrei meira, skattar sjaldan hærri.
Það er því af nógu að taka fyrir lítið vefrit.