Laugardagur 23. janúar 2016

Vefþjóðviljinn 23. tbl. 20. árg.

Ólafur Þór Gunnarsson læknir og þingmaður VG tók þátt í lagasetningu sem miðaði að því að auka varasaman útblástur frá bílum.
Ólafur Þór Gunnarsson læknir og þingmaður VG tók þátt í lagasetningu sem miðaði að því að auka varasaman útblástur frá bílum.

Ólafur Þór Gunnarsson læknir og þingmaður VG sagði í ræðu á þingi 23. nóvember 2010:

Þetta er hvati til umhverfisvæns lífsstíls og mun væntanlega á ekki svo mjög löngum tíma, eins og raunar hefur komið fram í máli nokkurra hv. þingmanna á undan mér, leiða til þess að bifreiðafloti landsmanna mun breytast í umhverfisvænni bifreiðar.

Þarna var læknirinn að fagna lagasetningu, frumvarpi Steingríms J. Sigfússonar, um að reka landsmenn úr bensínbílum í Dieselbíla og að menn yrðu skikkaðir flytja inn dýrar og orkusnauðar lífolíur. Allir viðurkenna nú að útblástur Dieselbíla er margfalt verri en bensínbíla og að framleiðsla á lífolíum veldur hungri og skógareyðingu.

Í vikunni upplýsti Kári Stefánsson læknir áhorfendur Stöðvar 2 um að 35% landsmanna leituðu sér aðstoðar vegna áfengissýki einhvern tímann á ævinni. Taldi hann að slíkar tölur sýndu fram á hve heppileg núverandi áfengiseinkasala ríkisins væri! Aðspurður hvaðan hann hefði þessar ævintýralegu tölur vísaði hann í annan lækni.

Þetta eru tölur frá SÁÁ, ég var að tala við Þórarinn Tyrfingsson [yfirlæknir á Vogi] áður en ég kom hingað.

Í viðtali við Viðskiptablaðið kannaðist Þórarinn hins vegar ekki við þessar tölur sem Kári nefndi.

Menn geta verið góðir læknar en þar með er ekki sagt að menn séu góðir þjóðfélagsverkfræðingar.