Miðvikudagur 20. janúar 2016

Vefþjóðviljinn 20. tbl. 20. árg.

Hlutabréf víða um heim hafa fallið hratt í verði á þessu ári. Þetta hefur gerst á Íslandi eins og víða annars staðar. Þannig var sagt frá því í dag að á þessu ári hefði um tíundi hluti markaðsvirði Össurar þurrkast út.

Þetta ætti að gleðja marga. Sérstaklega þá sem hafa áhyggjur af „ójöfnuðinum“. Að vísu kemur lækkun hlutabréfa á Íslandi ekki síst niður á lífeyrissjóðum en úti um allan heim eru auðmenn búnir að tapa þúsundum milljarða af markaðsvirði eigna sinna.

Það minnkar „ójöfnuðinn“ verulega.

En samt líður fáum betur, svo vitað sé. Þótt reglulega megi lesa fréttir um ógnir ójöfnuðarins þá er sjaldan bætt við að sem betur fer hafi úrvalsvísitalan nú lækkað um fimm prósent hér eða fjögur prósent þar, og hundrað þúsund milljarða markaðsvirði fokið út um gluggann. Þó ætti það að vera jákvætt, að minnsta kosti ef miðað er við hversu neikvætt það er, alltaf þegar birtast fréttir um að níu og hálfur ríkasti maður heims eigi jafn miklar eignir og allir í Afríku samanlagt.

Stór hluti eigna þessara miklu eignamanna eru hlutabréf sem einn daginn eru metin hátt en þann næsta ekki. Þau eru metin hátt þegar menn telja að einhverjir aðrir auðmenn væru tilbúnir að borga hátt verð fyrir þau. Það eru sambærilegir auðmenn, með mikið af bréfum en kannski minna af peningum.

Auðvitað eiga margir þessara auðmanna miklar eignir. En tölur um að þeir eigi svo og svo mikið meira en fátækasti hluti heimsins, sá hluti sem á ekki skráðar eignir, sem á ekki hlutabréf eða þinglýstar fasteignir, þar sem einkaeignarréttur er jafnvel ekki virtur, eru út í loftið.

Margir telja að það sé tóm vitleysa að efnalítið fólk hagnist á því að aðrir eigi miklar eignir. En líklega fer það nú eitthvað eftir því hvað auðmennirnir gera við eignir sínar. Þegar auðmennirnir nota þær, þá hagnast einhver. Sölumaður fær bónus og verkamaður í bílaverksmiðju fær laun þegar auðmaður pantar sér Rolls Royce. Auðmaður sem notar ekki peningana sína í neitt, annað hvort vegna þess að hann á í raun ekki svo mikið af þeim þótt hann eigi mikið af verðmætum hlutabréfum, eða af því að hann þorir ekki annað en að geyma þá á leynireikningi svo þeir verði ekki teknir af honum í nafni réttlætis, skapar ekki eins mikil auðsýnileg verðmæti fyrir aðra.

En í hvert sinn sem auðmaður nýtir eigur sínar á hann viðskipti við einhvern sem frekar vill eiga viðskiptin en eiga þau ekki.

Hvernig hefur fólki reitt af í þeim löndum sem hafa verið friðuð fyrir vondum kapítalistum? Hvað eru flestir vinstrimenn sannfærðir um að sé rótin að lélegum lífskjörum á Kúbu?