Mánudagur 18. janúar 2016

Vefþjóðviljinn 18. tbl. 20. árg.

Reykjavíkurborg leggur tugi milljóna króna í rekstur kvikmyndahúss.
Reykjavíkurborg leggur tugi milljóna króna í rekstur kvikmyndahúss.

Vefþjóðviljinn var að fá hugmynd.

Hvernig væri að reka opinber bíóhús? Markaðurinn ræður ekki við það að sýna almennilegar myndir. Hann er sífellt að eltast við það sem fjöldinn vill víst sjá en sinnir ekki því sem fjöldinn hefur ekki vit á að sjá.

Hugmyndin er því að hið opinbera opni bíóhús. Til dæmis væri tilvalið að Reykjavíkurborg opnaði bíóhús og sýndi þar fínar og vandaðar myndir, til dæmis um ógnir kapítalismans. Auðvitað yrði eitthvert tap á þessu, því fjöldinn hefur ekki vit á að sjá nógu margar vandaðar myndir sem hafa fengið verðlaun á ríkisstyrktum kvikmyndahátíðum um allan heim, en borgin myndi taka það á sig.

Að vísu segist borgin þurfa skera niður ýmsa þjónustu. Hún segist líka alls ekki geta lækkað skatta borgarbúa. Útsvarið er í hæstu leyfðu mörkum. Brýn mál, eins og þrenging umferðargatna og fuglahús og fjólublá málning á öðrum götum, fá varla nema milli eitt og tvöhundruð milljónir í hvert skipti.

Enn hefur borgin ekki opnað sitt eigið kvikmyndahús en borgaryfirvöld hafa þó stigið mikilvæg skref. Reykjavíkurborg hefur tilkynnt að hún muni á næstu tveimur árum leggja 25 milljónir króna í rekstur Bíó Paradísar.