Vefþjóðviljinn 17. tbl. 20. árg.
Það að íslenska ríkið hyggist leggja um tvo milljarða króna í erlendum gjaldeyri sem stofnframlag til nýs banka sem á að lána til eða fjárfesta í „innviðum“ í Asíu, segir nokkra sögu um stjórnmálaástandið.
Þetta er dæmigert mál sem enginn íslenskur stjórnmálamaður hafði á stefnuskrá sinni, enginn þeirra hafði barist fyrir þessu, enginn sem hafði neinn áhuga á þessu. Enginn fór í gegnum ungliðahreyfinguna, límdi á umslög, bar út bæklinga eða raðaði upp stólum fyrir fundi, hugsandi með sjálfum sér: Ef ég kemst á þing þá verður sko ekkert hálfkák. Þá fjárfestum við innviðum í Asíu.
Þetta er dæmigert mál sem berst að utan. Embættismaður kemur á fund í ráðuneytinu og segir að nú ætli einhver erlend ríki, jafnvel „alþjóðasamfélagið“, að stofna nýjan banka. Íslandi gefst kostur á að vera með frá byrjun.
Og þá fer allt í gang. Tillaga að utan borin inn í ráðuneytið af embættismanni sem hugsar sér gott til glóðarinnar þegar ferðalögin byrja og greiða þarf götu íslenskra fyrirtækja hjá bankanum. Tveir milljarðar, það er alveg hægt að útvega þá.
Hér má skjóta að við gerð síðustu fjárlaga kom fram að ekki væri „svigrúm“ til þess að lækka tryggingagjaldið.
Ef einhver hefði lagt til að ríkið legði tvo milljarða í stofnfé nýs sparisjóðs á Tálknafirði sem ætti að fjárfesta á sunnanverðum Vestfjörðum hefði sú tillaga ekki náð í gegnum ráðuneytin. Líklega ekki. Hugsanlega ekki. Þó standa Vestfirðir ríkinu nær en Asía, að minnsta kosti þar til Píratar hafa náð völdum í landinu og hafa skilið þá frá meginlandinu, eins og þeir hafa lýst yfir að þeir hyggist gera og enginn þingmanna flokksins hefur andmælt.
Auðvitað hefði átt að blasa við að íslenska ríkið tæki ekki þátt í að stofna nýjan banka í Asíu.
En þetta er líka svo dæmigert fyrir fleira.
Það sárvantar pólitík í íslenska pólitík. Eða öllu heldur sárvantar hægri-pólitík. Vinstrimennirnir mega eiga það að þeir reyna að færa þjóðfélagið til vinstri þegar þeir hafa aðstöðu til. Nú er þriðja ár kjörtímabilsins byrjað og enn standa öll lög Jóhönnu-stjórnarinnar óbreytt. Hvernig stendur á því að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa ekki lagt til við þingið að þau verði flest afnumin?
Hvernig stendur á því að enn eru kynjakvótar í stjórnum einkafyrirtækja? Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin lætur vinna kynjuð fjárlög? Hvernig stendur á því að skólar kenna enn samkvæmt námskrá Katrínar Jakobsdóttur? Hvernig stendur á því að tvöföldun erfðafjárskattsins hefur ekki verið afturkölluð? Hvernig stendur á því að hækkun fjármagnstekjuskattsins hefur ekki verið afturkölluð? Hvernig stendur á því að enn eru tekjuskattsþrepin þrjú og að ekki stendur til að þau verði aftur aðeins eitt? Hvernig stendur á því að iðnaðarráðuneytið heldur áfram að gera „ívilnunarsamninga“ við fyrirtæki? Hvernig stendur á því að enn hefur ekki verið hróflað við reglum um íblöndunarefni í eldsneyti?
Hvernig stendur á því að stjórnvöld vinna enn eins og vinstriflokkarnir hafi meirihluta á Alþingi? Hvernig stendur á því að stjórnarflokkarnir þora ekki með neitt mál í gegnum þingið nema stjórnarandstaðan samþykki það? Með einni undantekningu um Þróunarsamvinnustofnun. Þar var líka ópólitískt mál sem embættismenn í utanríkisráðuneytinu vildu endilega fá í gegn.
Hvenær ætla þingmenn stjórnarflokkanna að átta sig á því að kjósendur höfnuðu vinstristjórninni. Kjósendur vildu breyta um stefnu en ekki aðeins fá nýtt fólk til að framfylgja sömu stefnu.