Vefþjóðviljinn 15. tbl. 20. árg.
Margt er enn ósagt um slagsíðu Ríkisútvarpsins, framgöngu einstakra starfsmanna þess og þann hugsunarhátt sem þar virðist víða stundaður án þess að yfirmenn eða ráðuneyti hreyfi legg eða lið. Hið ótrúlega mál um pólítíska notkun á barnaþætti og mjög væg viðbrögð þar innanhúss, segir meira en mörg orð.
Í fjölmiðlapistli í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins segir Andrés Magnússon meðal annars:
Að enn einu lögbrotinu: Hér var í síðustu viku minnst á hið fordæmalausa Stundarskaup Ríkisútvarpsins á gamlársdag, þar sem pólitísk ádeila, persónuníð og innræting átti greiða leið í þátt fyrir börn. Í gær birti Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Ríkissjónvarpsins, loks „áréttingu“ vegna þessa:
Í Stundarskaupinu 2015 var atriði sem er ekki í samræmi við þá ritstjórnarlínu sem við höfum fylgt varðandi barna- og fjölskylduefni. Full ástæða er til að biðjast afsökunar á því. Ég og umsjónarmenn Stundarinnar okkar erum sammála um að barnaefni er ekki og á ekki að vera vettvangur pólitískrar ádeilu og það hefur ekki breyst.
Atarna er skrýtin nóta. Þar er látið eins og sjálft atriðið hafi einhvernveginn skrikað á ritstjórnarlínunni og afsökunar beðist á því. Þarna var hins vegar um ský laust lögbrot að ræða, því Ríkisútvarpinu eru lagðar sérstakar skyldur á herðar um að gæta „fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð“. Ekki þarf að orðlengja að því ber að auðsýna sérstaka aðgæslu og nærfærni þegar barnaefni á í hlut.
Getur verið að starfsmenn Ríkisútvarpsins geti brotið lög um stofnunina án þess að það hafi nokkrar afleiðingar aðrar en að þeir þurfi að birta afsökunarbeiðni þar sem þeir segjast vera sammála um að það megi ekki gera það sem þeir gerðu?!
Nei, það getur ekki verið. Þessu máli hlýtur að verða fylgt eftir. Þar á meðal hlýtur menntamálaráðherra að láta það til sín taka, því ekki getur verið að hann líti svo á að eina hlutverk sitt gagnvart Ríkisútvarpinu sé að reyna að ná sem mestum peningum frá skattgreiðendum til starfsmanna þess.