Föstudagur 4.desember 2015

Vefþjóðviljinn 338. tbl. 19. árg.

Það er sagt að ekki sé „svigrúm“ til að lækka tryggingagjald, umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlögum.

En hvað gera hægrisinnaðir stjórnmálamenn þá, kjörnir til valda með atkvæðum hægrisinnaðs fólks?

Þeir skapa þá slíkt „svigrúm“. Þeir skera niður í ríkisrekstrinum. Þeir fækka stofnunum. Þeir sameina skóla. Þeir fækka nefndum. Þeir sýna táknrænan sparnað og skipa ráðuneytum og stofnunum að fækka ferðalögum og ráðstefnuhaldi. Þeir tilkynna að nú verði sparað og sparnaðurinn renni aftur til vinnandi fólks með skattalækkunum.

Fyrir utan það, að hægrisinnaðir stjórnmálamenn, sem hugsa um hag hins almenna manns, borgarans, skattgreiðandans, þeir láta skattana ráða útgjöldunum en ekki öfugt. Þeir lækka skatta, til að létta byrðunum af vinnandi fólki, og laga svo útgjöld ríkisins hverju sinni að þeirri stöðu.

En ráðherrarnir eru tvístígandi. Þar er reyndar ekki helst við fjármálaráðherrann að sakast, fagráðherrarnir þora ekki í nein átök um neitt. Þess vegna er engu breytt af því sem vinstristjórnin gerði. Þess vegna eru nær engar raunverulegar skattalækkanir. Þess vegna er tekið undir næstum allar tillögur stjórnarandstöðunnar, hversu fráleitar sem þær eru, en tillögur af hægrivængnum fást ekki ræddar því þær gætu orðið umdeildar.

Raunverulegur niðurskurður er nær hvergi. Ráðherrar fara um og gera nýja og nýja „samninga“ við þrýstihópa og reyna þannig að gera framtíðarútgjöld samningsbundin, svona eins og það gildi við næstu fjárlagagerð.

Ríkisstjórnin, sem lætur af völdum eftir eitt og hálft ár, á að hleypa í sig kjarki og lýsa yfir að við lok kjörtímabilsins, í apríl 2017, hafi allar skattahækkanir vinstristjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrigrænna verið afnumdar.

Ríkisstjórnin á að gera það, en ekki segja að útgjöldin, sem hún hreyfir ekki við, séu svo mikil að ekki sé svigrúm til að lækka skattana.