Miðvikudagur 2. desember 2015

Vefþjóðviljinn 336. tbl. 19. árg.

Nýjasta uppgjöfin var að nú ætlar fjárlaganefnd ekki að láta afturkalla aukafjárveitingu til Ríkisútvarpsins, þrátt fyrir að nefndin segi að Ríkisútvarpið hafi ekki staðið við þau skilyrði sem sett voru fyrir fjárveitingunni.
Nýjasta uppgjöfin var að nú ætlar fjárlaganefnd ekki að láta afturkalla aukafjárveitingu til Ríkisútvarpsins, þrátt fyrir að nefndin segi að Ríkisútvarpið hafi ekki staðið við þau skilyrði sem sett voru fyrir fjárveitingunni.

Einn helsti misskilningur íslenskrar stjórnmálaumræðu heitir Vigdís Hauksdóttir.

Ekki svo að skilja að hún sjálf misskilji allt. Hún misskilur auðvitað sumt, en það gera fleiri stjórnmálamenn en hún. Raunar hefur hún merkilega oft rétt fyrir sér í öllum aðalatriðum, þótt einhver smáatriði flækist stundum með og dragi óþarflega mikið úr áhrifamætti aðalatriðanna hjá henni.

En meginmisskilningurinn sem henni tengist er hvernig hún sjálf er misskilin.

Ekki misskilin þannig að fólk haldi að hún meini allt annað en hún segir. Það er líklega sjaldnast þannig.

Misskilningurinn er að hún skeri eitthvað niður hjá ríkinu. Að hún haldi opinberum stofnunum í heljargreipum.

Hún hefur oft uppi stór orð og merkilega oft rétt, um alls kyns hluti í ríkisrekstrinum. Þeim fylgja fyrirheit, brýningar og yfirlýsingar um að aldrei verði gefist upp.

En svo er ekkert gert. Svo er gefist upp, með stóryrðum um að á næsta ári verði aldeilis tekið á.

Í raun þarf enginn eyðsluseggur að óttast fjárlaganefnd Vigdísar Hauksdóttur.

Fjárlaganefndin gefst alltaf upp. Styrkveitingar eru ekki skornar niður. Framlög eru ekki skorin niður. Raunverulegur niðurskurður hjá ríkinu er næstum enginn. Rétt eins og skattalækkanir eru litlar og hægar.

Nýjasta uppgjöfin var að nú ætlar fjárlaganefnd ekki að láta afturkalla aukafjárveitingu til Ríkisútvarpsins, þrátt fyrir að nefndin segi að Ríkisútvarpið hafi ekki staðið við þau skilyrði sem sett voru fyrir fjárveitingunni. Nefndin segir að þetta verði gert vegna þrýstings innan úr ríkisstjórninni og hljóta að verða gefnar mjög nákvæmar skýringar á því.

Staðreyndin er sú að enginn útgjaldasinni þarf að óttast Vigdísi Hauksdóttur og fjárlaganefndina hennar. Hún heldur engum í ótta. Hún sker ekkert niður.

Og eftir rúmt ár lýkur kjörtímabilinu.

En vegna stóryrðanna í Vigdísi þá heldur sjálfsagt fullt af fólki að ríkisstjórnin sé í miklum niðurskurði.

En hún er það ekki. Ríkisstjórnin sker ekkert niður, nema baráttugleði kjósenda sinna.