Þriðjudagur 1. desember 2015

Vefþjóðviljinn 335. tbl. 19. árg.

Elsta torg Parísar.
Elsta torg Parísar.

Vilji menn draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af manna völdum þurfa að koma fram nýir orkugjafar sem geta keppt við jarðefnaeldsneyti í verði og gæðum.

Því miður hefur fátt markvert gerst í þeim efnum á undanförnum áratugum. Þrátt fyrir mikinn opinberan stuðning hafa bæði sólar- og vindorka átt erfitt uppdráttar. Jarðefnaeldsneyti er enn með um 90% hlutdeild í orkunoktun mannkyns. Flestir rafbílar eru hlaðnir raforku frá orkuverum sem knúin eru jarðefnaeldsneyti.

Með fullri virðingu fyrir þeim mönnum sem safnast hafa saman í París á loftslagsráðstefnu er ólíklegt að þeir muni detta niður á nýja hagmkvæma orkugjafa. Þeir munu aðallega halda ræður það sem þeir skora hver á annan. „Við verðum að grípa til aðgerða.“ „Tíminn er að renna út.“

Reyndar kom það einnig fram í fréttum að forseti Bandaríkjanna hafði kallað á Bill Gates og Marc Zuckerberg sér til aðstoðar í þessum efnum, fáum einn sem er flinkur á tölvur og annan sem nær til unga fólksins á samfélagsmiðlunum.

Í viðtali við Wall Street Journal greinir Gates vandann sem fyrir liggur ágætlega. Hann sagði ekki væri hægt er gera ráð fyrir að því að til að mynda Indverjar færu að nota aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti  nema þeir væru hagkvæmari. Hið sama á raunar við um flesta aðrar þjóðir.

Hin leiðin til að minnka styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu er að eyða honum þaðan. Jú, einmitt, þetta er gömul hugmynd úr jurtaríkinu. Það eru tilraunir í gangi með slíkt víða um heiminn, ekki síst þar sem sólarorka er næg. Þær eru enn á frumstigi og orkubúskapur þeirra lítur ekki glæsilega út. En hver veit? Kannski verður málið leyst með þessum hætti.Einn angi þessarar hugmyndar hefur raunar skotið rótum hér á Íslandi með starfsemi Carbon Recycling International sem ætlar sér að fanga koltvísýring úr gufu frá jarðvarmavirkjun og breyta honum í metanól með raforku frá sömu virkjun.

En 40 þúsund stjórnmálamenn og skriffinnar í París að leit að nýjum orkugjafa? Nakti maðurinn í plexiglerinu er líklegri til að finna lausn.