Mánudagur 30. nóvember 2015

Vefþjóðviljinn 334. tbl. 19. árg.

Hér skrifuðu menn undir sjálfstæðisyfirlýsingu og stjórnarskrá hins fáránlega ríkis.
Hér skrifuðu menn undir sjálfstæðisyfirlýsingu og stjórnarskrá hins fáránlega ríkis.

Eru Bandaríkin ekki fáránlegt land?

Það getur verið forvitnilegt þegar fjölmiðlamenn skrifa pistla í eigin nafni. Það er að segja pistla sem eiga í raun að geyma þeirra eigin persónulegu skoðanir en ekki sæmilega hlutlausa fréttaskýringu eða umfjöllun.

Á sumum fjölmiðlum eru þessir pistlar ótrúlega einhæfir. Á sumum fjölmiðlum virðast allir blaðamenn og utanaðkomandi pistahöfundar tala einni röddu hins pólitíska rétttrúnaðar. Þar virðist aldrei nokkur maður efast um sjónarhorn rétttrúnaðarins hverju sinni, hvort sem rætt er um Evrópumál, umhverfismál, jafnréttismál, eða hvaða anga þjóðmálanna sem er.

Á öðrum fjölmiðlum eru skoðanir greinilega skiptari og fjölbreyttari hópur sem sinnir pistlaskrifunum.

Á laugardaginn skrifaði blaðamaðurinn Benedikt Bóas hugleiðingu í Morgunblaðið. Þar fjallaði hann um bandaríska hefð, „svartan föstudag“, sem hann segir nú hafa birst á dagatölum Íslendinga. Svo segir hann:

Bandaríkin eru langt frá því að vera stórkostlegt land. Það er frekar fáránlegt land og í raun er það eina góða sem Bandaríkin hafa gefið heiminum tónlistin. Það má reyndar beygja til hægri á rauðu ljósi víðast hvar í Bandaríkjunum sem er frábært.

Kannski er svona hugsun dæmigerð fyrir margt fólk af yngri kynslóðinni sem nú er farin að hasla sér völl og fræðir hina eldri reglulega um landsins gagn og nauðsynjar. Bandaríkin eru frekar fáránlegt land, þaðan sem ekkert gott hefur komið nema tónlist og svo ein umferðarregla, sem er að vísu frábær.

Gaman væri að vita hvernig staðhæfing eins og þessi þætti í upplýstum og víðsýnum nútímanum ef hún hefði ekki verið höfð um Bandaríkin. Afríka er fáránleg heimsálfa. Þaðan hefur ekkert gott komið nema dans og jú þeir gera flott spjót. Ætli þá hefðu aðrir miðlar gert frétt: „Blaðamaður segir Afríku fáránlega. Mikil vanþekking og fordómar, segir mannfræðingur og aðjúnkt við Háskólann á Bifröst.“

Nei frá Bandaríkjunum hefur aldrei komið neitt sem skiptir heiminn máli, nema kannski rokkið. Já Dylan, hvenær fær hann eiginlega Nóbelinn?