Helgarsprokið 29. nóvember 2015

Vefþjóðviljinn 333. tbl. 19. árg.

Unga fólkið sem í ljós kom að hefur ekki flutt úr landi bíður spennt eftir að heyra skýringu Jóhannesar á því hvers vegna það flutti ekki.
Unga fólkið sem í ljós kom að hefur ekki flutt úr landi bíður spennt eftir að heyra skýringu Jóhannesar á því hvers vegna það flutti ekki.

Í síðustu viku varð talsvert uppnám vegna þess að óljósar fréttir bárust af því að mikill landflótti ungra Íslendinga væri skyndilega brostinn á.

Talsmenn vinstri flokkanna lögðu út af þessu á alþingi. Katrín Jakobsdóttir formaður VG taldi í þingræðu ákveðin  „teikn á lofti um að ungt fólk sé að velja það að flytja frá landinu.“ Ásta Guðrún Helgadóttir þingmaður Pírata bætti um betur og sagði það hlyti að vera „áhyggjuefni fyrir íslensk stjórnvöld að fólk sé að flytja úr landi, að hér eigi sér stað eiginlegur atgervisflótti.“

Þróuðustu greininguna á þessu neyðarástandi setti Jóhannes Benediktsson fram í greininni „Flóttinn frá Sigmundi Davíð“ á miðvikudaginn í Stundinni. Jóhannes var nefnilega búinn að finna manninn sem fólkið flýr undan. Jóhannes segir þá fáu sem ekki renna undan forsætisráðherranum bíta á jaxlinn og velta því fyrir sér hvort þeir muni tóra til næstu kosninga:

Sumir flytja úr landi en aðrir bíta á jaxlinn. Get ég haldið niðri í mér andanum í eitt og hálft ár – eða fram að næstu kosningum – er spurning sem brennur á mörgum.

Mikil dramatík.

En æ, æ, svo kom tilkynning frá hagstofunni á föstudaginn. Það eru engar marktækar breytingar í flutningsjöfnuði fyrstu þrjá ársfjórðunga 2015. Flutningar fólks til og frá landinu eru bara ósköp svipaðir og undanfarna áratugi. Það er helst að hlutfall ungs fólks (20-40 ára) í hópi brottfluttra sé lægra í ár en áður.

Ætli Jóhannesb muni ekki sofa betur eftir þessar fréttir og skrifa grein um hve honum sé létt að fólk sé ekki að flýja og þar með sé sú ályktun að fólk flýi undan Sigmundi Davíð hæpin?

Nei ætli það. Líklega er best að vona bara að hún gleymist.

En ef svo ólíklega vildi til þá gæti hann kannski útskýrt í leiðinni hvers vegna það hefði bætt stöðu ungra og ófæddra Íslendinga ef þeir hefðu verið gerðir ábyrgir fyrir Icesave-skuldunum.