Miðvikudagur 25. nóvember 2015

Vefþjóðviljinn 329. tbl. 19. árg.

Nú ætla stjórnvöld að gera ýmsar breytingar á skattalögum. En því miður snúast þær fyrst og fremst um tæknileg atriði. Raunverulegar skattalækkanir eru auðvitað alltof erfitt skref og gæti meira að segja orðið umdeilt. Því yrði kannski haldið fram að skattalækkanir gögnuðust helst þeim sem borga skatta, og hverju ætti þá að svara? Nei, þá er nú öruggara að halda öllum skattalækkunum í slíku lágmarki að enginn taki eftir þeim og engan muni um þær.

Þær breytingar sem kynntar voru í vikunni snúast um að skattkort heyri sögunni til og álagningu verði flýtt. Svo á að gera breytingu á erfðafjárskatti, þannig að ekki verði lagður á erfðafjárskattur þegar góðgerðafélög fá arf.

En fyrst verið að breyta reglum um erfðafjárskatt, hvers vegna er þá ekki gert það sem þarf að gera og væri auðvitað sjálfsagt þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins tekur við af vinstristjórn.

Vinstristjórnin tvöfaldaði erfðafjárskattinn. Hvers vegna er hann ekki lækkaður aftur?

Hvers vegna ákveða núverandi stjórnarflokkar ekki að afnema skattahækkanir Jóhönnustjórnarinnar áður en kjörtímabilið er búið? Afnema þær allar. Sýna fólki að munur er á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og vinstristjórnum.

Skattgreiðendur þurfa raunverulegar skattalækkanir. Ekki tæknilegar breytingar.