Þriðjudagur 24. nóvember 2015

Vefþjóðviljinn 328. tbl. 19. árg.

Má ekki bjóða þér helmingi minni tunnu nú þegar sorpið verður hirt helmingi sjaldnar en áður?
Má ekki bjóða þér helmingi minni tunnu nú þegar sorpið verður hirt helmingi sjaldnar en áður?

Fréttir berast nú af því að Reykjavíkurborg ætli frá áramótum að sækja venjulegt sorp heim til fólks á 14 daga fresti í stað 10 eins og nú er. Fyrir nokkrum árum var sorpið hirt á 7 daga fresti. Það verður stemmning í sorpgeymslum fjölbýlishúsa þegar matarafgangar verðar búnir að standa í tunnunum í hálfan mánuð.

Til að koma til móts við borgarbúa, þegar sorpið verður hirt helmingi sjaldnar en áður, ætlar borgin að bjóða svonefnda spartunnu sem er 120 lítrar í stað hefðbundinnar tunnu sem er 240 lítrar. Einhvers staðar í borgarkerfinu hefur það verið reiknað út að þegar sorpið er sótt helmingi sjaldnar þurfi auðvitað helmingi minni tunnu.

En er ekki bara best að borgin láti af þessari þjónustu? Ekki bara vegna þess að borgin virðist ekki ráða við hana, heldur einnig vegna þess að hún er í samkeppni við einkafyrirtæki á þessu sviði?