Vefþjóðviljinn 327. tbl. 19. árg.
Helstu álitsgjafar á vinstrikantinum að ógleymdum föstum starfsmönnum Ríkisútvarpsins vilja láta almenning trúa því að Ríkisútvarpið hafi þurft að skera skelfilega niður í rekstri sínum. Að lengra verði ekki komist. Skattgreiðendur verði bara að leggja meira í reksturinn, annars sé ekki hægt að rækja öryggishlutverkið og menninguna, að ógleymdri hlutlausri fréttastofunni.
Hvað ætli rekstur fréttastofu Ríkisútvarpsins kosti á hverju ári? Hvað þarf að senda út marga fréttatíma í útvarpi og sjónvarpi á hverjum degi? Þarf að segja fréttir á klukkutíma fresti? Er almenningur annars í algerri óvissu um hvað gerist í veröldinni?
Þeir sem fylgjast með fréttatímum, finnst þeim líklegt að búið sé að skera niður, alveg „inn að beini“?
Finnst mönnum líklegt að niðurskurðarhnífurinn hafi í raun farið um, þegar fréttastofan stendur fyrir „beinni útsendingu“ inni í velflestum fréttatímum? Beinum útsendingum, sem snúast um það að fréttamaður stendur einhvers staðar og segir í hljóðnema eitthvað sem hefði mátt taka upp í stúdíói fyrr um daginn.
Lítið dæmi og ópólitískt, svo enginn haldi nú að dæmið sé tekið af því að þar sé pólitísk slagsíða.
Á laugardaginn sagði fréttastofan frá því að svo væri komið að erfitt væri að fá borð á veitingahúsum í miðbænum, nema pantað væri með fyrirvara. Svo var skipt niður á veitingahús við Laugaveg þar sem fréttamaður var í beinni útsendingu. Fréttamaðurinn sat á veitingahúsinu og sagði frá því að hann gæti ekki setið lengi því von væri á mörgum gestum. Því næst spurði hann kokkinn nokkurra spurninga og fékk sér svo sopa úr glasi.
Fréttir eins og þessi eru mjög algengar í aðþrengdu Ríkisúrvarpinu þar sem búið er að skera allt niður sem hægt er að skera niður. Bein útsending utan úr bæ, sem engin sjáanleg þörf er fyrir. Fréttamaður og tökumaður einhvers staðar að senda út einfalt tal í fréttamanni, eða einfalt viðtal, sem engin ástæða var til að taka í miðjum fréttatímanum.
Hvað ætli séu margar beinar útsendingar, inni í fréttatímum, á einu ári? Og hvað halda menn að margir raunverulega fréttnæmir atburðir, sem kalla á beina útsendingu, gerist á sama tíma?
Annað dæmi um samfelldan niðurskurð hjá Ríkisútvarpinu eru fréttir af íþróttaleikjum. Það er eins fréttastofan sendi bæði fréttamann og tökumann á hvern einasta leik í handbolta og körfubolta – og að sjálfsögðu bæði í kvennaflokki og karlaflokki því hið opinbera hefur ákveðið að landsmenn skuli hafa jafnan áhuga á kvennabolta og karlabolta.
Hvað ætli það kosti að senda tvo menn í íþróttahús að kvöldi til að taka upp nokkrar körfur eða markskot?
Hvernig væri að menn reyndu að spara raunverulega í Efstaleiti 1, en hættu að gera meiri og meiri kröfur á skattgreiðendur?
Hvernig væri líka að stjórnmálamenn hleyptu í sig kjarki og lækkuðu útvarpsgjaldið, svo um munaði?