Helgarsprokið 22. nóvember 2015

Vefþjóðviljinn 326. tbl. 19. árg.

Besta landkynning sögunnar, að minnsta kosti frá því Grænland var nefnt.
Besta landkynning sögunnar, að minnsta kosti frá því Grænland var nefnt.

Allt frá því Eyjafjallajökull hóf mestu auglýsingaherferð í sögu ferðaþjónustunnar í mars 2010 hefur verið ljóst að eigendur landsvæða á Íslandi, sem ferðamönnum þykja áhugaverð, gætu aflað talsverðra tekna með því að innheimta einhvers konar aðgangseyri.

Slíkur aðgangseyrir er í raun engin nýlunda á Íslandi. Eigendur veiðiréttar í ám og vötnum hafa innheimt aðgangseyri af veiðimönnum með góðum árangri í áratugi. Bláa lónið og Jarðböðin innheimta sömuleiðis aðgangseyri og nettæknin hefur jafnvel gert Bláa lóninu mögulegt að láta gesti bóka heimsóknartíma fyrirfram og þannig náð að jafna álagið og gera heimsókn hvers og eins ánægjulegri.

Því miður var talsverðum tíma eytt í hugmyndir um miðstýrða ríkislausn með opinberum úthlutunarsjóði sem nefnd var náttúrupassi, áður hafði einnig verið lagt á gistináttaskattur sem rann í ríkissjóðs.

Eins og hér hefur áður verið sagt er aðeins með því að greitt sé fyrir þjónustu á hverjum stað sé mögulegt að tryggja að aðeins þeir sem njóti greiði og að einnig að hægt sé að stýra álagi með mismunandi gjöldum og innheimtuaðferðum, að tekjur verði eftir á þeim stöðum sem afla þeirra og menn losni með enn einn opinbera úthlutunarsjóðinn þar sem fulltrúar flokka og kjördæma togast á um peningana.

Nú virðast nokkrir land­eig­end­ur og ferðaþjón­ustuaðilar á fjöl­sótt­um ferðamanna­stöðum á suðurströndinni hafa ákveðið að ekki sé eftir neinu að bíða í þessum efnum. Í tilkynningu sem þeir sendu frá sér segir:

Nokkr­ir land­eig­end­ur og ferðaþjón­ustuaðilar á fjöl­sótt­um ferðamanna­stöðum á suður­strönd­inni boðuðu til fund­ar með sveit­ar­stjór­um til að ræða aðbúnað og þjón­ustu við ferðamenn á fjöl­sótt­um ferðamanna­stöðum á svæðinu.  Brýnt er að fara í mikla upp­bygg­ingu á svæðinu öllu til að hægt sé á sóma­sam­leg­an hátt að taka á móti öll­um þeim ferðamönn­um sem sækja svæðin heim og það verður ekki gert án verulegs kostnaðar.

Um fjar­mögn­un slíkra verk­efna hef­ur verið deilt á und­an­förn­um árum og þar rætt um inn­komu­gjald, hærra gistinátta­gjald, nátt­úrupassa o.fl. án þess að niðurstaða feng­ist.

Land­eig­end­ur geta ekki beðið leng­ur eft­ir úr­lausn þess­ara mála, þar sem enn er bú­ist við veru­legri aukn­ingu ferðamanna á næstu árum, verður strax að grípa til aðgerða. 

Á fund­in­um var ákveðið að skoða til hlít­ar þá hug­mynd að nota bíla­stæðagjöld (þjón­ustu­gjöld) til fjár­mögn­un­ar á upp­bygg­ingu á svæðunum og fara sam­eig­in­lega í viðræður við aðila um heild­ar­lausn þeirr­ar hug­mynd­ar.  Jafn­framt verði unnið að gerð þjón­ustu­samn­inga milli ferðaþjón­ustuaðila og lang­deig­enda.

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins er hér um að ræða landeigendur við Selja­lands­foss, Skóga­foss, Sól­heima­jök­ul, Dyr­hóla­ey og Reyn­is­fjöru.