Laugardagur 21. nóvember 2015

Vefþjóðviljinn 325. tbl. 19. árg.

Þeir sem fylgjast með skrifum Björns Bjarnasonar á vef hans og víðar hljóta að fá það að tilfinninguna að það sé einhver furðulegur misskilningur að hann sé ekki utanríkisráðherra þjóðarinnar. Svo bera skrif hans um um alþjóðamál af því sem sagt er og skrifað er á íslensku um þau efni.

Í nýjustu dagbókarfærslu sinni víkur Björn að bókinni Eftirlýstur eftir Bill Browder sem flutti fyrirlestur um efni bókarinnar í Háskóla Íslands í gær.

Browder var fyrir nokkrum árum stjórnandi stærsta erlendra fjárfestingasjóðs í Rússlandi, Hermitage Management Fund. Árið 2006 var honum bannað að koma til Rússlands. Hann flutti alla fjármuni sína frá landinu en lögfræðingur hans, Sergei Magnitískíj, komst að því að rússneskir lögreglumenn sem brutust inn í skrifstofur sjóðsins eftir að fjármunir í honum höfðu verið fluttir frá Rússlandi fölsuðu skjöl til að krefja rússneska ríkið um að endurgreiða skatta, hátt í 300 milljónir dollara, til sín og samverkamanna sinna.

Eftir að Sergei hafði kært þetta til rússneskra yfirvalda var hann handtekinn og látinn sitja inni í tæpt ár án dóms og laga þar til hann var drepinn í fangelsi 16. nóvember 2009. Frá þeim tíma hefur Browder helgað sig baráttunni fyrir að morðingjum Sergeis verði refsað. Í þeim tilgangi hefur hann meðal annars skrifað bókina Red Notice sem Almenna bókafélagið hefur nú gefið út undir heitinu: Eftirlýstur.

Þetta er ótrúleg en sönn saga sem minnir á frásagnir fyrri tíma um stöðu einstaklingsins andspænis alræðisstjórn í Rússlandi. Stjórn sem fer sínu fram án minnsta tillits til mannréttinda. Stjórnarhættir Vladimírs Pútíns taka á sig æ ógeðfelldari mynd og vald sitt reisir hann í vaxandi mæli á því að skapa ótta á meðal rússnesks almennings sem talin er trú um að öryggi þjóðarinnar sé í hættu fái forsetinn ekki öllu sínu framgengt heima og erlendis – valdbeitingin út á við er til þess fallin að ýta undir óttablandna þjóðerniskennd sem er alls staðar hættuleg blanda en ekki síst í kjarnorkuveldi undir harðstjóra sem stendur höllum fæti.

Sem kunnugt er varð Ísland í fyrra aðili að þvingunaraðgerðum gegn helstu stríðsherrum Pútíns og nokkrum rússneskum ríkisfyrirtækjum sem þeir nota til að maka krókinn og færa feng sinn um veröldina. Þetta eru svipaðar aðgerðir og fleiri einræðisherrar, glæpagengi og hryðjuverkasamtök eru beitt og enginn hefur andmælt. Aðgerðunum er ekki beint gegn almennum viðskiptum eða almenningi.

Í sumar bannaði Pútín svo rússneskum almenningi og fyrirtækjum að kaupa íslenskar sjávarafurðir.

Það vekur því furðu að hvað eftir annað stíga menn fram og reyna að sannfæra íslensk stjórnvöld um að halda áfram að selja Rússum fisk!

Í fésbókarskrifum í dag segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor til að mynda:

Við eigum að selja Pútín fisk, alveg eins og við seldum Mússólíni fisk fyrir stríð, þótt Þjóðabandalagið setti á hann viðskiptabann.

Hér verður að gera ráð fyrir að prófessorinn eigi við að við eigum að selja Rússum almennt fisk en ekki Pútín harðstjóra þeirra persónulega. En hvers vegna skrifar hann þetta á íslensku og beinir þessu til Íslendinga? Það er Pútín sem vill ekki að Rússar kaupi íslenskan fisk. Á Íslandi hefur enginn neitt á móti því að Rússar kaupi af okkur fisk.