Vefþjóðviljinn 324. tbl. 19. árg.
Samkvæmt lögum á útvarpsgjald að lækka svolítið um áramótin. Með því myndu skattar alls þorra fólks lækka um sömu upphæð.
En nú hefur verið lagt til að fólk fái ekki þessa skattalækkun.
Peningarnir þykja betur komnir í hítinni í Efstaleiti 1. Þar má engan styggja.
Það er betra að almenningur skeri eitthvað niður hjá sér til að eiga fyrir gjaldinu en að þeir í Efstaleiti 1 þurfi að spara við sig.
Þess vegna er lagt til að fólk fái ekki skattalækkunina.
Þetta er tillaga menntamálaráðherra. Hún má ekki verða samþykkt.
Útvarpsgjaldið verður að lækka verulega frá því sem nú er. Mun meira en gert er ráð fyrir í núverandi lögum.
Hvað halda menn að gerist, ef fólk fær slíka skattalækkun? Að það verði kannski slagsíða á Ríkisútvarpinu í hefndarskyni? Það kannski komi einn hlutdrægur umræðuþáttur? Hlutdræg frétt? Hlutdrægur pistlahöfundur verði fenginn til að flytja pistil? Víðsjá verði reið?
Svo gæti sólin komið upp líka.