Miðvikudagur 11. nóvember 2015

Vefþjóðviljinn 315. tbl. 19. árg.

Hún er mörg verkalýðsbaráttan.

Nú hefur Birgitta Jónsdóttir veislustjóri Píratapartísins lagt til að fulltrúar í nefndum alþingis fari í „verkfall“ til að mótmæla því að ekki berist ný „mál frá ríkisstjórninni“.

Þetta er auðvitað rétt hjá Birgittu. Ef engin mál koma inn í þingnefndirnar, þá eiga nefndarmenn bara að berja í borðið og segjast engin mál afgreiða á meðan.

Sá sem fær ekkert að gera, hann fer auðvitað í verkfall.

En hvernig stendur á því að stjórnarandstaða kvartar yfir því að ríkisstjórnin komi ekki með nægilega mörg frumvörp?

Ætti stjórnarandstaðan ekki að fagna því? Finnst henni ríkisstjórnin ekki ómöguleg? Er ekki einmitt fagnaðarefni að ekkert komi frá henni? Hvers vegna á stjórnarandstaðan að fara í „verkfall“, til að knýja ríkisstjórn sem hún er alveg á móti, til að leggja fram frumvörp sem stjórnarandstaðan verður svo alveg á móti?

Getur skýringin kannski verið sú að stjórnarandstaðan veit að frá ríkisstjórninni kemur ekki neitt sem stjórnarandstaðan er í raun á móti?

Að ráðherrarnir séu flestir alveg ópólitískir eða þá svo hræddir við pólitískar deilur að þeir leggi ekkert pólitískt fram, hvort sem er. Það sem kemur „frá ríkisstjórninni“ sé því annað hvort komið frá ókosnum embættismönnum Evrópusambandsins eða ókosnum embættismönnum ráðuneytanna.

Og ráðherrarnir séu svo hræddir við stjórnarandstöðuna að þeir vilji ekki leggja nein frumvörp fram, nema um þau skapist „pólitískt sátt“. Það er að segja að stjórnarandstaðan leyfi þeim að fá frumvörpin samþykkt.

Já, kannski er það skýringin. Það er auðvitað skiljanlegt að stjórnarandstaða, sem er búin að læra þannig á ríkisstjórnina hræðist ekki að fá frá henni þingmál. Stjórnarandstaðan veit að ekkert verður samþykkt nema stjórnarandstaðan leyfi.

Ef í landinu væri pólitísk ríkisstjórn, sem hugsaði eitthvað um eigin kjósendur en minna um að friða stjórnarandstöðuna, þá myndi stjórnarandstaðan ekki sakna málanna frá henni.