Vefþjóðviljinn 314. tbl. 19. árg.
Í riti sínu Löstur er ekki glæpur varpar Lysander Spooner fram þeirri kenningu að ríkið geti aðeins tekið sér rétt sem maðurinn, einstaklingurinn, hafði fyrir daga ríkisvaldsins. Þannig þurfti menn að framselja ríkinu allt vald, ríkið þiggi allt sitt frá einstaklingunum. Ekkert vald sé ríkinu sjálfgefið.
Líklega er rétturinn til sjálfsvarnar besta dæmið þar um, rétturinn til að verja sig fyrir ofbeldi, þjófnaði og öðrum yfirgangi. Þennan rétt geta einstaklingarnir falið ríkinu sem gerir út lögreglu til að verja menn gegn ofbeldi og handsama yfirgangsmenn.
Á hinn bóginn er mætti svo nefna bann við sölu og notkun fíkniefna. Menn hafa ekki meðfæddan rétt til að banna náunga sínum að reykja frá sér vitglóruna. Því geta þeir ekki framselt slíkt vald til ríkisins.
Eða eins og Spooner orðaði það:
Markmiðið með refsingu fyrir glæpi er því ekki aðeins að öllu leyti annað en með refsingu fyrir lesti heldur í algjörri andstöðu við það. Markmið með refsingu fyrir glæpi er að tryggja öllum á sama hátt eins mikið frelsi og mögulegt er – í samræmi við jafnan rétt annarra – til að leita eigin hamingju undir leiðsögn eigin dómgreindar og með nýtingu eigin eigna. Markmiðið með refsingu fyrir lesti er hins vegar að svipta alla menn meðfæddum rétti og frelsi til þess að leita eftir hamingju að eigin hyggjuviti og með nýtingu eigin eigna. Þessi tvö markmið eru því algjörar andstæður.