Vefþjóðviljinn 313. tbl. 19. árg.
Þeir eru til sem reyna ótrúlega oft að færa umræðuna neðar en hún þyrfti að vera.
Nú er töluvert rætt um hlýnun jarðar og hvort hún sé af mannavöldum. Tugir þúsunda manna ætla á opinbera ráðstefnu um málið í Frakklandi á næstunni og ætla þar að tala langt mál um mikilvægi þess að aðrir bregðist skjótt við. Reykjavíkurborg sendir tólf manna sendinefnd, skipaða fulltrúm allra flokka, enda er sjaldan sjáanlegur munur á meirihluta og minnihluta í borgarstjórn, enda sjá færri og færri ástæðu til að kjósa minnihlutann.
Fjölmargir eru þeirrar skoðunar að hlýnun jarðar hljóti að vera af mannavöldum, þótt um þetta sé deilt. Vafalaust eru margir þeirra mjög einlægir í sinni trú og baráttu.
Hvernig fyndist mönnum ef einhver skrifaði í blöðin að slíkt fólk væri einfaldlega að ganga erinda umhverfisiðnaðarins, þrýstihópanna, styrkjasuðara og allra þeirra sem þiggja greiðslur fyrir að sækja ráðstefnur, vinna skýrslur og tala í útvarp um hlýnun og gróðurhúsaáhrif?
Ætli slíkur málflutningingur þætti ekki ómerkilegur? Ætli þeir, sem beittu honum, yrðu ekki sakaðir um að hafa fá og veik raunveruleg rök fyrir máli sínu? Ætli þeir yrðu ekki sakaðir um að „fara í manninn en ekki boltann“, eins og oft er sagt?
Í Fréttablaðið í morgun skrifar Guðmundur Andri Thorsson eina af sínum óvæntu greinum. Hann fjallar um loftslagsráðstefnuna í París og segir lesendum sínum að „við“ eigum alls ekki „að leggja eyrun við því sem úrtölumenn í loftslagsmálum segja.“ Þeir hafi nefnilega „ekkert fram að færa annað en vífillengjur og útúrsnúninga“.
Og hvað hefur rithöfundurinn svo sjálfur að segja um þessa úrtölumenn sem „hafa ekkert fram að færa annað en vífillengjur og útúrsnúninga“?
Jú, þeir eru „alltaf að ganga erinda olíufélaga og auðhinga þessir rangnefndu íhaldsmenn og talsmenn óhófs, eyðingar og sóunar“.
Það er nú fínt að geta treyst á þekktustu rithöfunda landsins til að halda umræðunni á háu plani.
Í lok greinarinnar kemur fram að Guðmundur Andri vill að Íslendingar dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030. Hann nefnir að vísu ekki hvernig það skuli gert, að öðru leyti en hann segir að ekki þurfi að „fjölyrða um möguleika Íslands til að losa sig við olíuna“.
Ef hverjum einasta bíl á Íslandi yrði lagt á morgun og ekki ekið framar þá myndi losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi minnka um 4%. Hvernig væri að þeir sem krefjast þess að Íslendingar minnki losunina um 40% útskýrðu hvernig þeir vildu ná því markmiði? Þeir mættu jafnvel gera það án þess að vera með vífillengjur og útúrsnúninga.