Vefþjóðviljinn 312. tbl. 19. árg.
Á dögunum birti Viðskiptablaðið niðurstöður viðhorfskönnunar um skatta. Þykir þér sú upphæð sem þú greiðir í skatta og lág, hæfileg eða of há? Yfir 67% svarenda sögðu skattheimtuna of mikla, 29% hæfilega og 4% of lága.
Um þessar niðurstöður sagði á vef skattgreiðendafélagsins:
En hvernig væri þá niðurstaðan ef skattgreiðendum væri raunverulega kunnugt um hversu háa skatta þeir greiða? Sýnilegar skattgreiðslur eru aðeins hluti þess sem hið opinbera tekur til sín og ráðstafar fyrir hönd okkar allra. Þannig sýslar hið opinbera með nánast helming þjóðartekna. Og skattar sem hlutdeild af vergri þjóðarframleiðslu hafa farið vaxandi síðustu þrjú ár.
Það er kappsmál fyrir skattgreiðendur að skattar verði gerðir sýnilegri og þrýstingur aukist þannig á stjórnmálamenn að fara betur með og draga út útgjöldum.
Stuðningsmenn VG skera sig frá stuðningsmönnum annarra flokka. Þannig eru það nánast eingöngu stuðningsmenn VG sem sögðu að skattar séu „alltof lágir“.
Hvernig ætli standi á því? Nærtækast er auðvitað að þeir séu svo miklir hugsjónamenn að þeir vilji gjarnan leggja meira af mörkum til að þenja ríkisvaldið út. Hins vegar er einnig hugsanlegt að þeir séu einfaldlega ekki að greiða mikinn tekjuskatt vegna lágra tekna, séu til að að mynda í námi en það rímar við þær niðurstöður könnunarinnar að það sé helst fólk á aldrinum 18 – 24 sem telur skatta of lága. Nú svo er síðasta og sísta ástæðan fyrir þessari afstöðu kannski sú að vinstri grænir séu líka svolítið svartir og telji það bæta samkeppnisstöðu sína á markaði að hækka skattana á afglapana sem standa skil á þeim.