Fimmtudagur 15. október 2015

Vefþjóðviljinn 288. tbl. 19. árg.

Helgi Hrafn vill ekki afnema fangelsisrefsingar fyrir vörslu fíkniefna „næstu hundrað árin eða eitthvað.“
Helgi Hrafn vill ekki afnema fangelsisrefsingar fyrir vörslu fíkniefna „næstu hundrað árin eða eitthvað.“

Af forsíðufrétt Fréttablaðsins í gær hefði mátt draga þá ályktun að Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata vildi afnema refsingar við fíkniefnabrotum. Það var þó ekki alveg ljóst af fréttinni hver afstaða Helga Hrafns er og blaðamenn Fréttablaðsins gerðu ekkert til að skýra hana.

En i Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær var líka rætt við Helga Hrafn og hann spurður beint og refjalaust um um þessar refsingar.

Helgi Hrafn Gunnarsson: Ég myndi vilja skoða hvernig dómar skila hvaða árangri. Skilurðu? Ég veit það ekki frekar en þið þú veist hver sé hæfileg refsing fyrir hversu mikið magn.

Kristófer Helgason: Þú vilt ekki að þetta sé refsilaust?

Helgi Hrafn: Hvert er markmiðið? Markmiðið er að sporna við þessu, er það ekki? Og markmiðið hlýtur þá að vera að með því að þyngja refsingar og eyða meiri peningum og veseni í fangelsiskerfið þá til að skila einhverjum tilætluðum árangri þá þarf að rannsaka með hliðsjón af reynslu annarra landa og okkar eigin af því hverjar afleiðingarnar eru af því að þyngja refsingar.

Kristófer: En viltu ekki hafa þetta refsilaust?

Helgi Hrafn: Innflutning á vímuefnum? Nei ég er nú ekki á þeim buxunum að vilja gera innflutning á ólöglegum vímuefnum refsilausan. Kannski einhvern tímann eftir hundrað ár eða eitthvað þegar við erum komin miklu lengra í málaflokknum.

Örvæntingarfull burðardýr og aðrir sem gripnir eru með fíkniefni mega því áfram búast við því að verða varpað í fangelsi þegar Píratar taka við stjórn landsins eftir næstu kosningar.

Að minnsta kosti „næstu hundrað árin eða eitthvað.“