Miðvikudagur 14. október 2015

Vefþjóðviljinn 287. tbl. 19. árg.

Finnst engum sem verið sé að fara illa með karlastétt?

Þrátt fyrir allt þá eru karlar enn yfirgnæfandi meirihluti lögreglumanna. Eins og menn vita hefur lögreglumönnum ekki tekist að fá ríkið til að gera við sig þann kjarasamning sem þeir vilja fá. Og aldrei tala fréttamenn, álitsgjafar eða stjórnmálamenn um að ekki sé samið við „karlastétt“.

Eins og þeir eru oft ákafir að fjalla um að illa sé farið með „kvennastéttir“.

En um kjaradeilu lögreglumanna og ríkisins er tvennt að segja.

Nú hefur ekki komið fram opinberlega hvaða launahækkanir ríkið hefur boðið lögreglumönnum. Hugsanlega hefur ríkið boðið svo vel, að samningsleysið er ekki því að kenna, en það er ekki víst.

Lögreglumenn hafa ekki verkfallsrétt. Það fyrirkomulag er mjög eðlilegt. Ríkið á hins vegar að gæta þess að lögreglumenn njóti þess fremur en gjaldi. Undanfarið hafa fjölmargar stéttir opinberra starfsmanna fengið mjög ríflegar launahækkanir og mjög líklegt að sumar hafi fengið mun meira en samrýmist aðstæðum í efnahagslífi og atvinnulífi.

Það er lítill vafi á því að hefðu lögreglumenn farið í verkfall hefði því annað hvort lokið með verulegum launahækkunum eða gerðardómi. Þeir eiga ekki að gjalda þess, að vegna síns sérstaka hlutverks innan ríkisins kemur ekki til greina að þeir hafi verkfallsrétt eins og flestir aðrir.

Auk þessa mætti ríkið minnast þess hverjir það voru sem komu í veg fyrir að landið yrði upplausn að bráð fyrir fáum árum, þegar reynt var af mikilli hörku að ná því fram. Það voru óbreyttir lögreglumenn sem unnu þar þrekvirki, undir samfelldum árásum, grjótkasti og öðru sóðalegra. Aldrei buguðust þeir, hversu fast sem sótt var að þeim og jafnvel ráðist að lögreglustöðinni og hurðir brotnar þar upp. Af einhverjum ástæðum heyrðist þá lítið í BSRB, en fréttamenn höfðu þá lítinn áhuga á þeirri þögn. Þeir hugsuðu meira um hvort ekki væri hugsanlegt að lögreglumenn gengju of hart fram.

Lögreglumennirnir, hundruð óbreyttra manna sem lögðu nótt við dag og lögðu sig í mikla hættu, eiga skilið mikla virðingu samborgara sinna fyrir frammistöðuna.

Þetta var það fyrra.

Það síðara er að kjaradeila lögreglumanna er persónulegt mál þeirra. Það má hafa samúð með sjónarmiðum lögreglumanna, en þeir mega ekki blanda sínu mikilvæga starfi í þá kjaradeilu. Og þeir verða að stilla sig um að nota einkennisbúning sinn í þeirri deilu. Ef þeir halda opinbera fundi eða samkomur vegna kjaramálanna, þá eiga þeir að skilja einkennisbúninginn eftir áður en þeir hefja fundinn.