Föstudagur 9. október 2015

Vefþjóðviljinn 283. tbl. 19. árg.

Nú hafa yfirvöld umhverfismála á Íslandi loks viðurkennt að útblástur gróðurhúsalofttegunda frá bílum er hverfandi þáttur.
Nú hafa yfirvöld umhverfismála á Íslandi loks viðurkennt að útblástur gróðurhúsalofttegunda frá bílum er hverfandi þáttur.

Undanfarna áratugi hefur íslenski umhverfisiðnaðurinn haldið því fram að samgöngur og sjávarútvegur séu helsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda af manna völdum á Íslandi. Einkum hafa menn horft til hins úthrópaða einkabíls og svo hefur útgerðin fengið að fljóta með eins og vaninn er þegar neikvæð umræða er í gangi.

En nú hefur Sigríður Á. Andersen alþingismaður dregið það fram með fyrirspurnum sínum til umhverfisráðherra að bílar og skip bera nánast enga ábyrgð á þeim útblæstri gróðurhúsalofttegunda sem stafar af athöfnum Íslendinga. Samkvæmt svari ráðherrans í fyrradag eru bílar með tæp 4% og sjávarútvegur 3%.

Með þessu svari hafa stjórnvöld umhverfismála loks viðurkennt að stærstan hluta útblástursins leggi upp úr rotnandi framræstu landi. Það er síðbúin en þakkarverð hreinskilni.

Ekki verður hins vegar betur séð en að íslenskir umhverfissinnar hafi vísvitandi tekið þátt í þeim feluleik og fölsunum ríkisins á útblásturstölum sem átt hafa sér stað fram til þessa dags. Það var þeim líkt.

Og hver ber aftur ábyrgð á þeirri óskaplegu eyðileggingu votlendis sem hér fór fram á síðustu öld? Jú það var ríkisvaldið sjálft sem hvatti menn og styrkti til þess. Sama ríkisvald og ofsækir bíleigendur með ýmsum hætti fyrir þeirra útblástur.