Vefþjóðviljinn 283. tbl. 19. árg.
Þingmenn Bjartrar framtíðar hafa lagt til að forseti Íslands verði framvegis kosinn í tveimur umferðum, fari svo að enginn frambjóðandi fái meirihluta atkvæða í upphafi. Verði þá kosið milli þeirra tveggja hæstu í síðari umferð.
Þetta leiðir hugann auðvitað að tvennu.
Það fyrra er fylgi Vigdísar Finnbogadóttur þegar hún var kosin forseti Íslands árið 1980. Vigdís fékk 33,8% fylgi, örlítið meira en Guðlaugur Þorvaldsson sem næstur kom.
Það síðara er nafnið á hátíðinni sem haldin var óvænt í sumar, þegar 35 ár voru liðin frá kosningunum 1980: „Þjóðin sem valdi Vigdísi.“
Þessi 66,2% sem mættu á kjörstað til þess að kjósa ekki Vigdísi, þeir eru ekki „þjóðin“.
Þetta er auðvitað ekki rifjað upp Vigdísi til hnjóðs. Þriðjungur kaus hana, tveir þriðju gerðu það ekki, og það dugði henni til naums sigurs, í samræmi við reglur sem giltu þá og gilda enn. Hún var rétt kjörin forseti og ekki hennar sök hvernig reglurnar voru og eru.
En jafnvel þessi kosning, þegar forseti var kjörinn með aðeins þriðjung atkvæða á bak við sig, varð ekki til þess að reglum um forsetakjör yrði breytt.
Enda hefur forseti Íslands ekkert vald sem „þjóðkjörinn embættismaður“. Slíkur málflutningur er eingöngu notaður þegar rökstyðja þarf að forsetinn hafi eitthvert vald sem hann hefur ekki.