Mánudagur 5. október 2015

Vefþjóðviljinn 279. tbl. 19. árg.

Fyrstu áratugina sem Listahátíð í Reykjavík var haldin, var hún haldin annað hvert ár. Nokkrum árum eftir aldamótin var hins vegar ákveðið að hún skyldi haldin árlega.

Skattgreiðendur gætu bara alveg gert það.

Það eru ekki aðeins íþróttaáhugamennirnir sem finnst sjálfsagt að láta skattgreiðendur borga fyrir sig áhugamálin. Og af því að svo margir, með svo ólík áhugamál, hafa fengið aðgang að ríkissjóði og borgarsjóði, þá eru líka fáir sem þora að andmæla slíkum styrkjum.

Íþróttaáhugamanninum finnst fráleitt þegar hann er skattlagður svo hægt sé að borga einhverjum fyrir innsetningu í rými, eða fyrir „vídeóverk“ eða veggjakrot. En hann veit það líka að ef hann kvartar þá munu aðrir koma og spyrja hvers vegna þeir séu skyldaðir til að borga í stúkuna hans og keppnisferðina til Jönköping.

Menningarmanninum finnst skammarlegt þegar aðþrengdur sveitarsjóður leggur enn eitt gervigrasið fyrir sportidjótanna. En hann veit að ef hann mótmælir af einhverjum krafti þá gæti einhver mótmælt þegar styrkurinn til grafík-sýningarinnar fer á fjárhagsáætlun.

Milli styrkjasuðaranna ríkir óskrifað samkomulag. Þú kvartar ekki yfir mínum styrkjum og ég sit á mér vegna þinna styrkja.

Á dögunum var sagt frá því að Listahátíðin í fyrra hefði verið rekin með tapi, þrátt fyrir opinber framlög. Skýringin var sú að velski bassabaritónsöngarinn Bryn Terfel veiktist og endurgreiða þurfti þá miða sem seldir höfðu verið á tónleika hans. Vegna þessa hefði stjórn Listahátíðar farið fram á að ríki og Reykjavíkurborg ykju framlag sitt til hátíðarinnar um sex milljónir króna. Auðvitað á þetta að lenda á skattgreiðendum. Þetta er á þeirra ábyrgð.

Hvaða líkur eru nú á því að ríkið og borgin neiti því?

Stjórnmálamönnum finnst að þeir fái ekkert nema gagnrýni, ef þeir standa á móti útgjaldakröfum. En ef þeir gefa eftir fyrir kröfunum þá fá þeir klapp á bakið. Þeir eru sagðir vera menningarmenn og fá að skrifa ávarp í sýningarskrárnar.

Fyrir þetta borga skattgreiðendur á hverju ári.