Helgarsprokið 4. október 2015

Vefþjóðviljinn 278. tbl. 19. árg.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir flaug inn á þing í fyrstu atrennu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjaneskjördæmi árið 1999, þá 34 ára. Aðeins fjórum árum síðar var hún orðin menntamálaráðherra þótt ýmsir aðrir þingmenn flokksins, bæði konur og karlar, ættu lengri þingsetu að baki. Þannig var Sigríður Anna Þórðardóttir bæði með meiri þingreynslu og ofar en Þorgerður Katrín á lista flokksins í suðvesturkjördæmi þegar Þorgerður Katrín varð ráðherra. Tveimur árum síðar varð Þorgerður Katrín svo varaformaður flokksins.

Þorgerður Katrín lét af embætti varaformanns árið 2010 og gaf ekki kost á sér við síðustu þingkosningar árið 2013. Í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér vegna síðarnefndu ákvörðunarinnar gaf hún enga skýringu á því að hún leitaði ekki endurkjörs en sagði:

Mér er efst í huga þakklæti, til þeirrar breiðfylkingar sjálfstæðismanna, sem ég hef starfað með og hitt fyrir á þeim árum sem ég hef verið í stjórnmálum.

Ekki var því annað að heyra en Þorgerður Katrín hefði kunnað gott að meta í Sjálfstæðisflokknum.

Það kom því sjálfsagt flatt upp á marga þegar hún sagði í viðtali við Fréttablaðið á föstudaginn var:

Flokkurinn, í ljósi sögunnar, hefur alltaf látið sér nægja að hafa einhverja eina konu einhverstaðar sem ákveðna fjarvistarsönnun fyrir því að það sé bara allt í lagi.

Hvernig á að skilja þetta? Var eitthvað samsæri gegn konum í Sjálfstæðisflokknum á meðan Þorgerður Katrín var þingmaður hans, varaformaður og ráðherra? Tóku bæði karlar og konur þátt í því? Og hvaða konur voru þetta sem notaðar voru sem „fjarvistarsannanir“?

Þegar Ólöf Nordal varaformaður Sjálfstæðisflokksins hvarf af vettvangi stjórnmálanna vorið 2013 fór af stað umræða um meinta bága stöðu kvenna í Sjálfstæðisflokknum þótt önnur kona tæki við af henni sem varaformaður. Ekki varð umræðan minni þegar svo vildi til að þrír karlar röðuðu sér í efstu sæti prófkjörs flokksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Þá var skrifað á hér sem er líklega ástæða til að endurtaka:

Síðast fór talsverð umræða um hlut kvenna í flokknum fram eftir að Ólöf Nordal ákvað að gefa ekki kost á sér áfram sem varaformaður flokksins síðastliðinn vetur. Ólöf varð þingmaður flokksins í fyrstu atrennu eftir prófkjör fyrir þingkosningar árið 2007 og síðan varaformaður eftir aðeins þrjú ár sem kjörinn fulltrúi flokksins. Það er óvenju skjótur frami innan Sjálfstæðisflokksins hvort sem litið er til karla eða kvenna.

Við embætti varaformanns flokksins tók Hanna Birna Kristjánsdóttir sem fór beint í borgarstjórn Reykjavíkur í fyrstu tilraun eftir að hafa verið sett af kjörnefnd á lista flokksins, varð síðar borgarstjóri og er nú ráðherra flokksins eftir að hafa hlotið yfirburðastuðning í fyrsta þingprófkjöri sínu fyrir kosningar síðasta vetur.

Með Hönnu Birnu í ríkisstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn situr Ragnheiður Elín Árnadóttir sem fór rakleitt inn á þing eftir að hún gaf kost á sér í prófkjöri fyrir kosningar 2007 og er nú nokkrum árum síðar orðin ráðherra. Með Ragnheiði Elínu kom nafna hennar Ríkharðsdóttir inn á þing, sömuleiðis í fyrstu tilraun eftir prófkjör og er nú formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Það er því ekki mjög sannfærandi að konum sé hvað eftir annað hafnað í Sjálfstæðisflokknum eins og haldið er fram.

Og nú þegar Hanna Birna hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram sem varaformaður er ekki útlit fyrir annað en kona taki við henni.