Föstudagur 2. október 2015

Vefþjóðviljinn 276. tbl. 19. árg.

Sveitarfélögin glíma flest við mikinn fjárhagsvanda. Þau hafa flest eytt mjög um efni fram og sveitarstjórnarmenn sjá yfirleitt engin önnur úrræði en að fá „auknar tekjur“, sem þeir vilja sækja í vasa skattgreiðenda. Meðal þess sem sveitarfélögin hafa eytt mikið í eru íþróttafélögin, en sveitarfélög leggja velli, byggja stúkur og reisa hús, fyrir áhugamenn um íþróttir.

Í vikunni talaði Morgunblaðið hins vegar við Gunnar Júlíus Helgason, formann íþróttafélagsins Þróttar í Vogum á Vatnsleysuströnd. Hann var stoltur af nýlegum árangri knattspyrnuliðsins sem var að vinna sér sæti í þriðju deild. En það var ekki það eina sem hann hafði ástæðu til að vera ánægður með.

Völlurinn í Vogum er afar fallegur, í góðu ásigkomulagi og skartar einnig glæsilegri stúku – nokkuð sem mörg fjórðudeildarfélög geta einungis látið sig dreyma um. „Aðstaðan breyttist mikið árið 2012 þegar útiaðstaðan var tekin í notkun og í kjölfarið settum við okkur hærri markmið. Það kviknaði líf og stúkan var byggð,“ segir hann en stúkubyggingin kom ekki inn á borð bæjarins eða félagsins. „Stúkan er verkefni þriggja manna sem gengu í verkið. Þetta er ekki byggt af bænum eða félaginu, heldur er stúkan afrakstur einstaklingsframtaks,“ segir Gunnar stoltur.

Auðvitað er það ekki svo að Þróttur í Vogum fái enga styrki frá sveitarfélaginu. Engu að síður er þessi stúkuframkvæmd ánægjuleg og ætti að verða öðrum og stærri íþróttafélögum fyrirmynd.

Hvers vegna þarf alltaf að herja á skattgreiðendur til að niðurgreiða áhugamálin? Ef þrír menn í Vogum geta byggt stúku án þess að útsvarsgreiðendur séu neyddir til að taka þátt í því, hvað geta þá stór og öflug íþróttafélög ekki gert? Þá gætu þau líka verið stolt af stúkunni sinni, vellinum og aðstöðunni.