Vefþjóðviljinn 275. tbl. 19. árg.
Í gær fengu kol og kjarnorka langþráða viðurkenningu sem umhverfisvænir orkugjafar í samgöngum á Íslandi.
Þá tók Orka náttúrunnar (veituhluti Orkuveitu Reykjavíkur) við „Umhverfisverðlaunum atvinnulífsins“.
Í rökstuðningi dómnefndar sagði meðal annars að Orka náttúrunnar (ON) hefði:
tekið þeirri áskorun sem felst í því að ein besta leiðin til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda er að rafvæða samgöngurnar.
Eins og menn geta kynnt sér hér á vef ON er rafmagnið sem félagið selur viðskiptavinum framleitt að einum þriðja með jarðefnaeldsneyti (olíu, kolum og gasi) og nær fjórðungi með kjarnorku. Á vefnum kemur jafnframt fram að rafmagnskaupum frá ON fylgi útblástur gróðurhúsalofttegundarinnar koldíoxíðs upp á 298,69 g á hverja kWh og losun geislavirks úrgangs upp á 0,65 mg/kWh.
Þetta kemur til af því að ON hefur skipt á „upprunavottorðum“ við evrópsk kjarnorku- og kolaver. Notendur kjarn- og kolaorkunnar í Evrópu geta því kallað sína orkunotkun hreina, græna og endurnýjanlega en viðskiptavinir ON sitja uppi með losun gróðurhúsaloftegunda og geislavirks úrgangs.
Viðskiptavinir ON geta aðeins séð þennan uppruna raforkunnar á rafmagnsreikningum sínum einu sinni á ári líkt og sjá má á reikningum hér að ofan. Hvers vegna ætli þessar upplýsingar séu ekki á rafmagnsreikningum hvers mánaðar?
Og nú vaknar að sjálfsögðu sú spurning hvort rafmagnsbíll sem knúinn er orku úr kolabruna og kjarnahvörfum sem ON selur á rafmagnsbíla sé „umhverfisvænni“ en venjulegur bíl sem brennir bensíni? Svarið við þeirri spurningu þyrfti einnig að taka tillit til brennisteinsins sem ON eys yfir borgarbúa og nærsveitir úr Hellisheiðarvirkjun.