Vefþjóðviljinn 274. tbl. 19. árg.
Í dag er áratugur liðinn frá því danska dagblaðið Jótlandspósturinn birti teikningar sem sagðar voru af Múhameð spámanni. Þann áratug hafa teiknaranir verið undir lögregluvernd, og ekki að ástæðulausu.
Flestir muna líklega enn eftir árásinni sem gerð var á franska tímaritið Charlie Hebdo þar sem bæði starfsmenn blaðsins og lögreglumenn voru myrtir. Ekki er liðið ár frá þeim voðaverkum.
Mikil bylgja reis í Frakklandi og víðar eftir árásina. Nú myndu Vesturlönd ekki láta bjóða sér þetta lengur. Nú skyldi enginn vafi leika á því lengur að staðinn yrði traustur vörður um frjálslynd gildi Vesturlanda og enginn skyldi komast upp með að grafa undan þeim. Nú myndi allt breytast.
Daginn sem árásirnar voru gerðar skrifaði Vefþjóðviljinn meðal annars:
Með hryðuverkinu í París í morgun var reynt að hræða fólk um allan hinn vestræna heim frá því að nýta sér tjáningarfrelsi sitt á einhvern þann hátt sem hryðjuverkamönnunum og skoðanabræðrum þeirra er ekki að skapi.
Sjálfsagt mun það bera einhvern árangur, því hvað sem líður heitstrengingum stjórnmálamanna og ýmsum ágætum fyrstu viðbrögðum hugrakkra manna um álfuna, þá eru þeir auðvitað margir sem skiljanlega vilja ekki taka áhættuna af að kalla slík voðaverk yfir sig og sína.
Þótt fáir muni vilja gefa nein grundvallargildi sín eftir berum orðum, þá er slíkt oft fært í þann búning að menn verði að „sýna skilning“ á sjónarmiðum þeirra sem gera meiri og meiri kröfur í þá veru.
Fyrr á þessu ári tilkynnti tímaritið Charlie Hebdo, sem gerir grín að öllu og öllum, óttast ekkert og ber ekki virðingu fyrir neinu, að það væri hætt að teikna myndir af Múhameð.
Skiljanlega. Hver vill lifa lífi sínu í ótta, ef hann kemst hjá því?
Enginn stjórnmálamaður á Vesturlöndum mun segja upphátt að Vesturlönd eigi að gefa gildi sín eftir. En hvað gera þeir til þess að standa vörð um þau, eða draga úr hættunni að sótt verði að þeim, hvort sem er utan frá eða innan frá? Það er mjög sótt að þeim frjálslyndu gildum sem hafa verið ráðandi á Vesturlöndum síðustu öldina og ótrúlega margir sem vilja þau feig, hvort sem Vesturlandabúum líkar það betur eða verr.