Fimmtudagur 24. september 2015

Vefþjóðviljinn 268. tbl. 19. árg.

Í grein í The Wall Street Journal í dag vekur Jacob Borden efnaverkfræðingur og fyrrum starfsmaður BP athygli á því að frá því í ágúst á síðasta ári hafi olíuverð fallið úr 96 í 40 dali tunnan. Það er 60% lækkun. Á sama tíma hefur hins vegar útsöluverð á bensíni í Bandaríkjunum aðeins lækkað um 25%.

Hvernig stendur á þessu?

Borden bendir í fyrsta lagi á ekki hefur verið reist ný olíuhreinsunarstöð í Bandaríkjunum frá árinu 1976 og fáar þeirra hafi lagt í förina gegnum reglugerðafrumskóginn sem fylgi verulegri endurnýjun þeirra. Stöðvarnar séu því ekki í stakk búnar til að taka við hinu fjölbreytta framboði af hráolíu nú til dag, meðal annars þungri olíu úr tjörusandi.

Og svo eru það kröfurnar til eldsneytisins sjálfs. Þar koma ekki síst til kröfur um íblöndun svonefnds endurnýjanlegs eldsneytis. Íblöndun etanóls í bensín leiðir til hækkunar á gufuþrýstingi sem hefur það í för með sér að meira sleppur út í andrúmsloftið af léttum sameindum úr eldsneytinu. Til að mæta þessu þurfa olíuhreinsistöðvar að losa sig við léttustu þætti hráolíunnar. Það eykur kostnað og dregur úr nýtingu hráolíunnar.