Vefþjóðviljinn 267. tbl. 19. árg.
Meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur skipa Samfylkingin, Píratar, Vinstrigrænir og Björt framtíð. Ef skoðanakannanir ganga eftir munu sömu flokkar mynda næstu ríkisstjórn á Íslandi. Þá munu afreksverk, eins og þau sem unnin voru í borgarstjórn á dögunum, verða algeng.
Eins og til að leggja áherslu á þetta hefur Birgitta Jónsdóttir nú lýst yfir að hún vilji að Alþingi ákveði að „sniðganga“ vörur frá Kína.
Víðtæk mannréttindabrot viðgangast í Kína. Það þótt því ekki öllum sjálfsagt að gera sérstakan fríverslunarsamning við Kína. En það verður skemmtilegt þegar einn daginn verður ákveðið að ekki verði keyptar vörur „frá Kína“. Það verður fróðlegt að fylgjast með töllvörðum ríkisins þegar þeir verða komnir undir stjórn Birgittu Jónsdóttur og byrja að leita að orðunum made in China á varningi.
Enginn þarf að ímynda sér að ríkisstjórn Birgittu og félaga láti staðar numið við þetta. Hún vill bylta stjórnarskránni og líklega þjóðfélaginu öllu. Stór hluti kjósenda hefur undanfarin ár verið marineraður í kenningum um „fjórflokkinn“ sem öllu hafi komið í kaldakol á Íslandi undanfarna áratugi, og í krafti þess ætla Birgitta og félagar að mynda næstu ríkisstjórn. Og þá munu samþykktir eins og borgarstjórn gerði í síðustu viku vera hreinn barnaleikur.
Það er raunar merkilegt hvílíkar framfarir hafa orðið á Íslandi undanfarna áratugi. Hvað lífskjörum hefur fleygt fram, atvinnulíf dafnað, kaupmáttur vaxið, nýjasta tækni er öllum aðgengileg og atvinnuleysi er að jafnaði nær ekki neitt. Með þennan skelfilega „fjórflokk“, sem allir netlesandi menn vita að verður þegar í stað að gefa frí.