Föstudagur 11. september 2015

Vefþjóðviljinn 254. tbl. 19. árg.

Það er að vissu leyti dæmigert fyrir farsæld íslenskra stjórnmála að um leið og Björk Vilhelmsdóttir hefur mjög áhugaverð viðhorf fram að færa, greinilega byggð á langri reynslu hennar innan hins félagslega kerfis, þá hættir hún í stjórnmálum.

Það hefði verið ávinningur af því að hún hefði haldið áfram í borgarstjórn og fjallað þar um mál með þeim sama hætti og hún gerir nú. Með brotthvarfi hennar nú munu fáir borgarfulltrúar þora að tala með þessum hætti, hvað þá að láta athafnir fylgja orðum.

Björk Vilhelmsdóttir á hrós skilið fyrir að segja hug sinn með þessum hætti, þótt betra hefði verið að hún hefði gert það áður en hún ákvað að hætta störfum í borgarstjórn. En það er engu að síður mikilvægt að þessi sjónarmið heyrist úr Samfylkingaráttinni, því hugsanlega getur það orðið til þess að opna augu einhverra í þeim flokki.

Um allan hinn vestræna heim má heyra talað með sama hætti og Björk gerði nú. Ekki síst á það við um hefðbunda hægri flokka. Þeir hafa jafnan átt fjölda áhrifamikilla manna sem hafa varað við því sama og Björk gerir. Það er einna helst á Íslandi sem fáir kjörnir fulltrúar hægrimanna tala reglulega svona.

Undanfarin ár hafa sumur kjörnir fulltrúar hægrimanna fyrst og fremst óttast að vera grunaðir um að vera hægrimenn. Í málflutningi þeirra, tillögum og ákvörðnum verður sjaldan vart nokkurrar hægrimennsku. Þeir virðast fremur vera í keppni við vinstrimennina í vinstrimennsku, en í þeirri keppni fá hægrimenn fá aldrei nein verðlaun.

Auðvitað eru undantekningar frá þessu, en þróunin hefur verið í þessa átt meðal kjörinna fulltrúa.