Mánudagur 7. september 2015

Vefþjóðviljinn 250. tbl. 19. árg.

Meira en þriðjungur Íslendinga á heima í höfuðborginni og stór hluti fyrirtækja landsins. Íbúarnir greiða gríðarlegar fjárhæðir á hverju ári til borgarinnar í útsvar, fasteignagjöld og ýmis önnur gjöld. Mörg stór verkefni eru svo í höndum borgaryfirvalda, svo sem gatnakerfið í borginni, grunnskólar og leikskólar, alls kyns félagsþjónusta og svo framvegis.

Það skiptir því verulegu máli hvernig borgin er rekin. Reksturinn þarf að geta gengið upp án óeðililegrar skuldasöfnunar og ekki má ganga of hart fram í skattlagningu, því hún dregur kraft úr fólki og fyrirtækjum og rýrir það sem þau hafa til sinna hefðbundnu þarfa og langana.

Í síðustu viku birti Viðskiptablaðið úttekt á rekstri Reykjavíkurborgar eins og hann er núna. Þar segir meðal annars:

Kostnaður við rekstur A-hluta Reykjavíkurborgar heldur áfram að aukast og hefur aldrei verið eins hár. A-hluti er grunnþjónusta Reykvíkinga að viðbættum Bílastæðasjóði og Eignasjóði. Samkvæmt árshlutauppgjöri, sem kom út fyrir skemmstu, munu útgjöld aukast um rúma 3,2 milljarða króna umfram verðlag á milli 2014 og 2015. Útgjöld þessa árs eru framreiknuð miðað við fyrri helming ársins. Það er aukning upp á 3,72% á einu ári. Niðurstaðan er tap upp á tæplega 6,1 milljarð króna, ef fram fer sem horfir. …

Í fyrri úttekt Viðskiptablaðsins frá 7. maí síðastliðnum um fjárhag Reykjavíkurborgar var greint frá því að borgaryfirvöld hafa fengið viðvaranir frá fjármálaskrifstofu borgarinnar vegna hættumerkja í rekstrinum, þegar ársreikningi fyrir síðasta ár var skilað. Viðvaranir fjármálaskrifstofunnar beindust fyrst og fremst að útgjöldum, en þar var til að mynda bent á að laun og annar rekstrarkostnaður væru orðin 123% af skatttekjum. Samkvæmt árshlutareikningi er þetta hlutfall komið í 129% á fyrri helmingi ársins 2015, bæði vegna launahækkana hjá borginni og fjölgunar stöðugilda.

Aðrar kennitölur í árshlutauppgjörinu benda til þess að grunnrekstur borgarinnar standi ekki nægilega vel og fari versnandi. Þannig hefur uppgreiðslutími skulda hjá borginni aukist úr tveimur árum árið 2009 og mælist nú 34 ár. Að sama skapi hefur veltufé frá rekstri lækkað úr 11% árið 2009 niður í 1,4% nú. Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er talið æskilegt að veltufé frá rekstri sé ekki lægra en 9%. …

Á meðan íbúum fjölgaði úr 119.547 í 121.960 eða um 2,02% á milli áranna 2009 og 2015 hefur stöðugildum hjá borginni fjölgað úr 6.308 í 6.495 (að frádregnum stöðugildum vegna málaflokks fatlaðra) á sama tíma, eða um 2,96% Það er tæplega 50% meiri fjölgun en íbúafjöldi einn og sér gefur tilefni til, en 66 þessara stöðugilda bættust við á fyrri helmingi þessa árs. Sú þróun hefur átt sér stað þrátt fyrir aðvaranir fjármálaskrifstofu um háan og hækkandi launakostnað hjá borginni. Ofangreint bendir til þess að ekki hefur verið brugðist við þessum ábendingum eða gripið til nægra aðgerða til að halda aftur af útgjaldaaukningu.

Hvernig svarar svo Dagur Eggertsson borgarstjóri því sem þarna kemur fram? Í Viðskiptablaðinu svarar hann engu. Í úttektinni segir:

Viðskiptablaðið gerði árangurslausar tilraunir til að ná sambandi við Dag B. Eggertsson, borgarstjóra við vinnslu úttektarinnar. Tilraun var gerð til að hringja í síma hans á mánudegi, auk þess sem send var beiðni í tölvupósti um símaviðtal sama dag. Það er sami háttu og var hafður á þegar fyrri úttekt Viðskiptablaðsins var gerð um fjárhag borgarinnar 7. maí, með sama árangri.

Að sjálfsögðu er borgarstjóra í sjálfsvald sett hvort hann svarar spurningum fjölmiðlamanna, auk þess sem ýmsar skýringar geta verið á því að hann hafi ekki tök á að tala við þá. En menn geta velt fyrir sér hvort blaðamaðurinn hefði náð jafn litlum árangri í að fá samtal við Dag, ef erindið hefði verið gengi fótboltalandsliðsins eða ákvörðun um að breyta nafni einnar götu borgarinnar í nafn persónu úr Star Wars.

En auðvitað ættu fjölmiðlar að óska eftir skýrum svörum Dags um fjármál borgarinnar. Og spurningum um þau ætti ekki að beina til hans eins. Í úttekt Viðskiptablaðsins er fjallað um þróunina frá árinu 2009 til 2015. Fjögur ár þess tíma sat Jón Gnarr í stóli borgarstjóra og eðlilegt að leitað sé álits hans á rekstri borgarinnar á valdaárum hans.