Vefþjóðviljinn 243. tbl. 19. árg.
Líklega eiga Íslendingar heimsmethafa. Sennilega er hvergi í lýðræðisríki til sú meirihlutastjórn sem leggur meiri rækt við baráttumál andstæðinga sinna en sú íslenska.
Stjórnarandstaðan og fjölmiðlar hennar eru fyrir löngu búin að læra á þetta. Þau vita að ekki þarf nema örfárra daga snarpa fjölmiðlaumfjöllun um nauðsyn einhvers baráttumáls stjórnarandstöðunnar, og þá eru ráðherrarnir byrjaðir að segja hver á eftir öðrum í hljóðnemann að þessi mál þoli enga bið og nú verði að láta hendur standa fram úr ermum. Það tekur þannig stundum bara einn eða tvo daga að taka völdin í einstökum málum.
Í dag var til dæmis sagt frá því í Morgunblaðinu að stutt væri í að lagt yrði fram frumvarp til breytinga á stjórnarskránni. Þetta frumvarp mun geyma nokkur mál, allt gamla uppvakninga af vinstrikantinum, svo sem heimild til framsals íslensks fullveldis til erlendra stofnana, ákvæði um að þjóðaratkvæðagreiðslur verði haldnar í framhaldi af undirskriftasöfnunum og að auðlindir verði lagðar í ríkiseigu.
Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms gerði atlögu að stjórnarskránni. Hún lét sér ekki einu sinni segjast þótt Hæstiréttur landsins hefði dæmt stjórnlagaþingskosninguna hennar Jóhönnu ógilda. Nei áfram var haldið.
En hvað gerði núverandi ríkisstjórn þegar kjósendur höfðu hent Jóhönnu-stjórninni út?
Hún hefur líklega sýnt stjórnarskránni, stjórnskipan landsins og Hæstarétti þá virðingu að segja skýrt að atlögunni að stjórnarskránni væri lokið og hún fengi að standa óhögguð næsta kjörtímabil.
Nei.
Núverandi ríkisstjórn virðist halda að sér sé skylt að halda lífi í öllum kreddum Jóhönnu og Steingríms.
Ekkert er hróflað við þeim lögum sem sett voru í valdatíð Jóhönnu og Steingríms.
Gæluverkefnum Jóhönnu-stjórnarinnar er haldið áfram, hvar sem þau er að finna. Meira að segja stjórnarskráin fær ekki að vera í friði.
Og hvenær sem stjórnarandstaðan eða fjölmiðlamenn hennar gera áhlaup í einhverju nýju máli gefast ráðherrarnir strax upp, og samþykkja allar kröfur. Telja þær ekki þola neina bið.
Samfylkingin er aðeins með níu þingmenn og einn ráðherra, en samt stjórnar hún landinu á margan hátt enn.