Vefþjóðviljinn 242. tbl. 19. árg.
Á dögunum háðu þeir Óli Björn Kárason og Ögmundur Jónasson ritdeilu í Morgunblaðinu um einkarekstur í heilbrigðismálum. Yfirleitt er fengur að því sem þessir menn skrifa um stjórnmál, því báðir hafa burði til að fjalla um raunverulegar stjórnmálahugmyndir og eru gjarnan sjálfum sér samkvæmir og halda fram sjónarmiðum sem byggð eru á raunverulegum meginskoðunum þeirra sjálfra, óháð tískusveiflum og því hvort þjóðmálapendúllinn sveiflast til vinstri eða hægri hverju sinni.
Það er mikill munur á, hvorum þeirra Vefþjóðviljinn er oftar sammála, en þeir Óli Björn Kárason og Ögmundur Jónasson eiga hvor um sig raunverulegt erindi í íslensk stjórnmál, og mun meira erindi en mjög margir þeirra sem atvinnu hafa af stjórnmálastarfi.
Þegar minnst er á einkarekstur í heilbrigðismálum hrökkva margir í kút. Fyrstu viðbrögð mjög margra eru skiljanlega þau, að hugsa með sér að nauðsynleg heilbrigðisþjónusta verði að standa öllum Íslendingum til boða. Láglaunamaðurinn, sá gjaldþrota og sá óvinsæli, eigi allir að fá þá læknishjálp sem þeir þurfa, ef slys eða sjúkdóma ber að höndum. Þá megi eignaleysi eða önnur atriði ekki standa í veginum.
Vafalaust er þetta afstaða meirihluta Íslendinga og ekki er vitað um nokkurn stjórnmálaflokk sem vill breyta þessu.
Stundum gerist það að fréttir eru sagðar af einhverjum sem stundar einkarekstur í heilbrigðisþjónustu og því slegið upp að hann hyggist græða á skjúklingum. Gera sér sjúkdóma og fötlun að féþúfu. Það fer um marga þegar fréttist af slíkum aurasálum.
En auðvitað er það svo að mjög margir hagnast á veikindum og fötlun annarra. Og það er alls ekkert að því.
Fjöldi fólks hefur einmitt lifibrauð sitt af því að annast sjúka. Ef enginn veiktist yrði lítið að gera hjá læknum, hjúkrunarfræðingum, meinatæknum, sjúkraliðum og öðru starfsfólki sjúkrahúsa. Bílstjóri sjúkrabílsins hefði lítið að gera. Allt eru þetta einstaklingar sem þiggja fégreiðslur fyrir að koma að læknishjálp við veikt fólk.
Lyfjafyrirtæki leggja gríðarlega fjármuni í rannsóknir og þróun nýrra lyfja. Sumar tilraunirnar verða að lyfjum sem hjálpa milljónum manna og skila framleiðandanum gríðarlegum ágóða. Aðrar tilraunir verða að engu og skila framleiðandanum ekki öðru en vonbrigðum og gríðarlegum kostnaði. Að sjálfsögðu má ætla að vísindamennirnir, aðrir starfsmenn og eigendur lyfjafyrirtækjanna hafi af því gleði þegar þeir sjá að vinna þeirra og fé bera þann árangur að fólk um víða veröld kemst til betri heilsu. En enginn þarf að ætla að það eitt reki þá alla áfram. Og einhverjum þeirra er eflaust næstum því sama, svo lengi sem hlutabréfin hækka í verði.
Það eru ekki aðeins lyfjafyrirtækin sem græða á sjúklingum. Alls kyns hjálpartækjaframleiðendur hefðu lítil viðskipti ef ekki væri fólk sem þarf hækju eða heyrnartæki, gleraugu og gangráð. Auðvitað mætti segja að þessir framleiðendur reyndu að hagnast á fötlun annarra. Þessi bölvaði gleraugnasali gerir sér sjóndepru annarra að féþúfu.
Og þegar öll læknishjálp og öll heimsins lyf gagnast ekki lengur, þá er allt eins víst að einhver gráðugur smiður græði á því að smíða líkkistu.
Auðvitað er flest af þessu augljóst. En þegar þessi augljósu atriði eru höfð í huga þá blasir eiginlega við að það þarf ekkert óeðlilegt að vera við það, þótt einkaaðilar selji þjónustu sem ætlað er að bæta heilsu viðskiptavinarins.
Menn ættu ekki að þurfa að vera sjálfkrafa á móti einkarekstri í heilbrigðismálum. Nú þegar eru kostir einkarekstrar nýttir á ótal sviðum heilbrigðismálanna og það er hægt að gera það áfram og í ríkari mæli, án þess að haggað verði við því að öllum sé tryggð læknishjálp án tillits til efnahags og annarra slíkra atriða. Aukinn einkarekstur í heilbrigðismálum á að geta snúist um að ríkið, sem ver sívaxandi fjárhæðum til að bæta heilsu borgaranna, fái meira fyrir peningana sína. Það vantar alltaf peninga en sjúkdómar virðast óþrjótandi.
Einstaklingarnir sem vinna á spítalanum eru allir einkaaðilar sem selja ríkinu aðgang að vinnuafli sínu og kunnáttu. Það er ekkert náttúrulögmál að ríkið þurfi endilega að eiga spítalahúsið sjálft, tækin, sloppana og plástrana. Það er heldur ekkert náttúrulögmál að ríkið megi ekki eiga þetta. Þeir sem vilja bæta heilbrigðiskerfið fyrir alla, ættu að horfa með opnum huga á það hvernig takmarkaðir fjármunir verða best nýttir, svo þjónustan batni og biðtími styttist. Á flestum sviðum er einkarekstur skilvirkari en ríkisrekstur og framfarir þar hraðari. Menn ættu ekki að loka augunum fyrir kostum hans þar sem þeir geta nýst. Menn geta vel nýtt kosti einkarekstrar í ríkari mæli, án þess að það valdi nokkru „ójafnrétti til heilbrigðisþjónustu“.