Fimmtudagur 27. ágúst 2015

Vefþjóðviljinn 239. tbl. 19. árg.

„Hrunið“ er of stórt orð um efnahagserfiðleika einnar ríkustu þjóðar í heimi. Nú bendir fátt til annars en að lýðveldið Ísland hafi staðið erfiðleikana af sér og bætist sú frammistaða þá á langan lista yfir velgengni Íslendinga.
„Hrunið“ er of stórt orð um efnahagserfiðleika einnar ríkustu þjóðar í heimi. Nú bendir fátt til annars en að lýðveldið Ísland hafi staðið erfiðleikana af sér og bætist sú frammistaða þá á langan lista yfir velgengni Íslendinga.

Það var eins og við mátti búast.

Hið afgerandi orð „hrun“ hefur verið notað hér í Vefþjóðviljanum sem víða annars staðar frá árinu 2008. Enda varð mörgum hverft við. En hér var því svo varpað fram á sunnudaginn að líklega væri það heldur vel í lagt að kalla efnahagserfiðleikana sem hófust árið 2008 „hrun“. Það gæti vart staðist að þjóðfélag, sem væri nýlega talið hrunið, væri engu að síður eitt hið ágætasta í heimi, Hvernig gæti það staðist að hrunið þjóðfélag væri í efstu sætum í hvers kyns alþjóðlegum samanburði um lífskjör, stöðuleika, öryggi og réttarríki, atvinnuþátttöku, lífeyrismál, heilsu, menntun, jafnrétti kynjanna og jafnvel sjálfa hamingjuna.

Þetta féll í grýttan jarðveg hjá fólkinu sem gert hefur „hrunið“ að helsta haldreipi sínu í lífinu.

Stefán Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands skrifaði á Fasbók að þetta væri „dæmigerður lygaspuni úr smiðju hægri öfgamanna.“ Bubbi Morthens tónlistarmaður skrifaði „ég veit að það eru fíkniefni notuðu útum allt en þetta er steikt.“ Gífuryrðin um „hlandhausa“ og „fasista“ streymdu fram hjá virkum í athugasemdum. Egill Helgason hjá Ríkissjónvarpinu reyndi þó að styðja það með fleiru en stóryrðum að hrun hafi orðið og skrifaði á Eyjuna að „allir bankar landsins féllu með brauki og bramli, sömuleiðis næstum allir sparisjóðir og fjölmörg stórfyrirtæki. Hlutabréfamarkaður fór úr 9040 stigum í rúmlega 300 á stuttum tíma.“

En eru ekki allir sammála um að stór hluti hinna 9000 stiga í vísitölu hlutabréfa hafi verið froða? Það liggja jafnvel fyrir mjög þungir fangelsisdómar fyrir sápukúluframleiðslu í bönkunum. Er það „hrun“ þegar slíkri froðu skolar burt? Eða eru bankar kannski eitthvað merkilegri fyrirtæki en önnur? Mega þeir ekki lenda í erfiðleikum án þess að það sé talið „hrun“?

Í byrjun árs 2006 var skrifað hér í Vefþjóðviljann:

Engu er líkara en að svonefndir „markaðsaðilar “ ætli að blása hlutabréfaverð svo hressilega upp að hvellurinn verði ógleymanlegur. Ekki síst þeim sem koma hlaupandi með sparifé sitt síðustu dagana til að „taka þátt í hækkunum“ eins og einn verðbréfasalinn orðaði það skömmu áður en síðasta bóla sprakk um aldamótin.

Þegar þetta var skrifað átti úrvalsvísitalan eftir að nær tvöfaldast áður en bólan sprakk. Í millitíðinni ráðlagði Egill Helgason fólki að skuldsetja sig í erlendri mynt. Í desember 2007 skrifaði Egill: 

Því eins og þeir vita sem hafa tekið gjaldeyrislán er það nánast eins og kraftaverk hversu fljótt fer að ganga á höfuðstólinn.

Hér hefur ekki verið efast um að margir lentu í miklum erfiðleikum í kjölfar falls bankanna. En í flestum tilvikum hélt hið ágæta líf Íslendinga áfram þótt þeir þyrftu að draga saman seglin og neita sér um ýmislegt sem ofurgengi krónunnar, furðu miklar tekjur og ódýrt lánsfé hafði gert þeim mögulegt að veita sér á árunum fyrir 2008. Atvinnuleysi varð aldrei meira en 7% í kjölfar „hrunsins“ sem þætti nú bara lágt í venjulegu árferði í mörgum löndum. Atvinnuleysið undanfarna mánuði í þessu landi „hrunsins“ hefur verið rúmlega 3%. Atvinnuleysið í Noregi er nú rúm 4% og 10% í Evrópusambandinu.

„Hrunið“ er því of stórt orð um þessa efnahagserfiðleika einnar ríkustu þjóðar í heimi. Nú bendir fátt til annars en að lýðveldið Ísland hafi staðið erfiðleikana af sér og verður sú frammistaða líkt og svo margt annað þá talin hinu farsæla eyríki til tekna er fram líða stundir.