Vefþjóðviljinn 238.tbl. 19.árg.
Nú er unnið að undirbúningi fjárlaga. Þar er margt sem þarf að gera og má ekki láta ógert lengur.
Kjörtímabilinu lýkur senn. Það er nú þegar meira en hálfnað og senn líður að þeim tíma er komandi kosningar fylla huga þingmanna og ráðherra.
Það verður að lækka skatta umtalsvert. Ekki brot úr prósenti hér, og annað minna brot þar, og draga svo úr því litla sem þó var gert með því að færa skattþrep til. Það þarf raunverulega skattalækkun sem skattgreiðendur munar um og sem þeir taka eftir við hver mánaðamót.
Það nægir ekki að lækka skatta svo lítið að enginn finni fyrir því í raun nema starfsmenn fjármálaráðuneytisins, sem virðast fá hjartverk við tilhugsunina um allar raunverulegar skattalækkanir.
Það þarf að lækka útvarpsgjaldið verulega. Það þarf bæði að létta álögum af skattgreiðendum og það þarf að minnka peningabálið í hítinni í Efstaleiti. Þingmenn og ráðherra verða að hleypa í sig kjarki og hætta að láta starfsmenn Ríkisútvarpsins hræða úr sér allan kjark. Þeir sem ekki þola nokkra daga af tryllingi úr Efstaleiti 1, eiga ekki að bjóðast til að sitja á þingi fyrir annað fólk.
En þegar á að lækka skatta verða þingmenn dauðhræddir við spurninguna: „Hvar á að taka peningana?“
Þeir eiga ekki að hræðast spurninguna heldur fagna henni.
Þeir eiga að segja að það eigi einmitt ekki að „taka peningana“. Ríkið eigi að taka minna af vinnandi fólki. Leyfa því sjálfu að ráðstafa meiri hluta eigin aflafjár. Leyfa hverju heimili að nota peningana sína meira eftir eigin forgangsröðun en minna eftir kröfugerð þeirra manna sem finnst þeir sjálfur og sín áhugamál svo merkileg að skattgreiðendur eigi að borga og borga.
Þeir eiga líka að segja að ríkið muni einfaldlega sníða sér stakk eftir vexti. Rétt eins og heimili og fyrirtæki geri á hverjum degi. Útgjöldin eigi svo að ráðast af innkomunni, en ekki öfugt.
Og svo eiga þeir að spyrja á móti: Hvers vegna er það bara við skattalækkanir sem spurt er hvaðan eigi að „taka peningana“? Hvers vegna er ekki spurt að því þegar lagður er hálfur milljarður í nýjan „jafnréttissjóð“? Hvers vegna er ekki spurt að því þegar hækka á laun ríkisstarfsmanna? Hvers vegna er ekki spurt að því þegar auka á „þjónustu“ einhverrar ríkisstofnunar? Hvers vegna er ekki spurt að því þegar frekustu starfsmenn ríkisins heimta meiri peninga til sinnar stofnunar?
Stjórnmálamenn og núverandi ráðherrar eiga að lækka skatta umtalsvert og fyrir alla.