Mánudagur 10. ágúst 2015

Vefþjóðviljinn 222. tbl. 19. árg.

„Þeir ráku féð í réttirnar, í fyrsta og annan flokk...“
„Þeir ráku féð í réttirnar, í fyrsta og annan flokk…“

Margir halda að á Íslandi starfi einhver Fjórflokkur. Hann hafi verið lengi við lýði, raunar nær alla síðustu öld, og klúðrað flestu sem hægt sé að klúðra. Flest sé ómögulegt á Íslandi, nema auðvitað frábært og skapandi fólk, og allt sé þetta Fjórflokknum að kenna. Það bara verði að koma Fjórflokknum frá völdum og kjósa nýja kynslóð, fólk sem „stundi ný vinnubrögð“ og „þykist ekki geta allt“ og sé því sannfært um að einmitt það eigi að stjórna landinu.

Eitt af því sem haft er gegn Fjórflokknum er að hann beri ekki virðingu fyrir kjósendum og telji sig geta gengið að þeim vísum. Kjósendur Fjórflokksins séu hugsunarlausar hjarðsálir, ólíkt kjósendum nýju flokkanna, frumlegum og skapandi, sem nota ekki einu sinni plastpoka og fara hjólandi í brýnum erindagjörðum.

Nú eru uppi deilur innan stjórnmálaflokksins Bjartrar framtíðar, sem þar til nýlega var alveg svakalega ferskur valkostur við Fjórflokkinn, allt þar til Píratar trompuðu sem enn ferskari kostur.  Ríkisútvarpið talaði um helgina við Heiðu Kristínu Helgadóttur sem nú „er til í“ að verða formaður Bjartrar framtíðar, og nefndi sérstaklega í viðtalinu að hún hefði stofnað flokkinn. Heiða Kristín segir einnig að núverandi formaður, Guðmundur Steingrímsson, eigi að hugsa sinn gang. Hún segir:

Mér finnst að hann hafi fengið ágætis tækifæri til að sanna sig og það er búið að leggja mikið í þennan flokk bæði risastórt, hérna svona, fylgi frá Besta flokknum og alls konar hluti…

Fréttamaðurinn sem talaði við Heiðu Kristínu spurði ekki hvernig „risastórt fylgi frá Besta flokknum“ hefði verið lagt inn í Bjarta framtíð. Finnst Heiðu Kristínu að þeir sem einu sinni kusu Besta flokkinn séu þar með orðin eign þeirra sem í raun áttu þann flokk?

Hvernig hefðu fréttamenn brugðist við ef einhver forystumaður „fjórflokksins“ hefði talað um kjósendur eins og þeir væru eign flokksins og forystumennirnir gætu við hverjar kosningar ákveðið að leggja fylgið inn í nýjan og nýjan flokk?

Ætli það hefði ekki verið enn ein sönnunin fyrir nauðsyninni á að „gefa fjórflokknum frí“ og kjósa nýjasta ferska valkostinn í staðinn?