Þriðjudagur 11. ágúst 2015

Vefþjóðviljinn 223. tbl. 19. árg.

Þess eru jafnvel dæmi að menn telji að loftslagsmálin svonefndu hafi ekki verið tekin föstum tökum vegna „efasemdarmanna“ eða „afneitara.“ En það eru þeir kallaðir sem hafa leyft sér að tala ekki í takt við hið svonefnan „scientific consensus“ eða hina vísindalegu samstöðu um loftslagsmálin.

Þetta er flótti frá raunveruleikanum. 

Raunverulega ástæðan fyrir því að menn hafa ekki lokað fyrir útblástur gróðurhúsalofttegunda og þar með hækkandi styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu er miklu einfaldari en samsæriskenningar um áhrif efasemdarmana.

Ástæðan er einfaldlega sú að menn hafa því miður ekki beislað orkugjafa sem geta keppt við jarðefnaeldsneyti. Um 90% orkuþarfar mannkyns er mætt með bruna jarðefnaeldsneytis.

Umhverfissinnar hafa raunar haldið því fram í áratugi að þess sé skammt að bíða að jarðefnaeldsneytið gangi til þurrðar. Þar með hefði málið verið leyst hvað útblástur frá bruna þess varðar. En nýjustu fregnir herma hins vegar að nægt framboð verði um ókomin ár af olíu, kolum og gasi en hins vegar sé farið að sneyðast um endurnýjanlega raforku á Íslandi!

Og kannski er ein ástæðan fyrir því að ekki hefur tekist að vekja verulega athygli almennings á þessum málum sú að þeir sem hrópað hafa hæst um þau eru sömu umhverfissinnarnir og -samtökin og hafa svo oft hrópað úlfur úlfur um umhverfis- og auðlindamál. Þessir aðilar hafa ekki hikað við að dreifa ýkjum og ósannindum til að vekja athygli á, ekki bara málstað sínum, heldur fyrst og fremst sjálfum sér í fjáröflunarskyni.