Vefþjóðviljinn 211. tbl. 19. árg.
Undanfarna daga hafa menn rætt birtingu álagningarskrár af talsverðu kappi. Tilefnið er sýning umræddrar skrár á skrifstofum skattstjóra og dreifing fjölmiðla á persónugreinanlegum upplýsingum úr þeim. Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu auk þess fram frumvarp seint á síðasta þingi sem myndi auka friðhelgi einkalífs hvað þetta varðar og ætlunin mun að leggja það fram að nýju í haust.
Vefþjóðviljinn saknar þess að heyra ekki í fulltrúum Pírata um þessi mál. Vildu Píratar ekki vernda friðhelgi einkalífs? Að minnsta kosti friðhelgi sjálfrar Birgittu?
Jón Þór Ólafsson, einn þingmanna flokksins lagði raunar fram tillögu á liðnu þingi, sem gekk að nokkru leyti í sömu átt og frumvarp sjálfstæðisþingmannanna. En tillagan var dregin til baka. Á Facebook 15. júní gaf Jón Þór þessa skýringu á því að féll frá tillögunni:
Eftir að ég lagði fram tillöguna þá var réttmæt og rökstudd óánægja á facebook Pírataspjallinu að hér tækjust á tvö grunngildi Pírata um friðhelgi einkalífsins og upplýsingarétt almennings.
Ég boðaði til opins fundar sem var gagnlegur en við Píratar erum ekki búnir að komast að lendingu í þessu máli svo rétt var og samkvæmt grunnstefunni (sem er mitt umboð) hvað varðar upplýstar ákvarðanir að draga tillöguna til baka.
Í 48. grein stjórnarskrárinnar segir: „Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“
En þingmenn geta sjálfsagt haft þá skoðun að pírataspjallið á Facebook sé sannfæring þeirra.