Vefþjóðviljinn 212. tbl. 19. árg.
Við þinglok í vor sömdu vinstri flokkarnir um að fá sín helstu mál samþykkt. Eitt þeirra var að eyða fé skattgreiðenda í enn eina „hagkvæmnikönnun“ á lestarsamgöngum. Að því búnu sagði Steingrímur J. Sigfússon að hann myndi gjarnan vilja leggja lestarteina austur fyrir fjall. Það myndi kosta öll fjárlög íslenska ríkisins.
Ekki veit Vefþjóðviljinn hvers vegna íslenskir stjórnmálamenn eru farnir að kalla sporvagn léttlest. Kannski vegna þess að sporvagninn er aldargamalt samgöngutæki og þeir vilja frekar tengjast nútímalegum og ferskum fyrirbærum.
En líkt og svo mörg önnur gæluverkefni metnaðarfullra pólitíkusa eiga „léttlestir“ það til að fara út af sporinu vegna alls kyns hagsmunapots og ofboðslegs kostnaðar.