Vefþjóðviljinn 204. tbl. 19. árg.
Í vor lögðu tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins fram frumvarp til breytingar á lögum um fjarskipti. Frumvarpið gerir ráð fyrir að núgildandi ákvæði um hljóðritun símtals gangi jafnt yfir alla, hvort sem þeir eru starfsmenn tryggingafélags eða fjölmiðils. Tilkynna beri viðmælanda að hljóðritun eigi sér stað.
Að sjálfsögðu geta menn deilt um hvort friðhelgi einkalífs eigi að ná til símtala fólks en fyrst svo er samkvæmt núgildandi fjarskiptalögum er sjálfsagt að þau nái til allra.
Hjálmar Jónsson formaður Blaðamannafélags Íslands brást hinn versti við tíðindum af frumvarpinu og taldi af og frá að blaðamenn færu að sömu reglum og aðrir landsmenn. Þvert á móti ættu þeir að vera hafnir yfir lögin. Í viðtali við Morgunblaðið 31. mars síðastliðinn sagði Hjálmar: „Ég átta mig ekki á tilgangi þessara lagasetningar og á öllum mínum blaðamannaferli þá varð ég ekki var við það að fólk væri ósátt við það að samtöl væru tekin upp í þeim tilgangi að farið væri rétt með.“
Það er alltaf áhugavert þegar menn telja sig hafa „fólkið“ á sínu bandi.
Til að kanna hug „fólksins“ til málsins fékk Andríki því MMR til að gera viðhorfskönnun. Spurt var: Telur þú rétt að fjölmiðlamönnum beri að upplýsa viðmælendur sína áður en símtöl eru hljóðrituð?
Niðurstöður könnunarinnar voru birtar í maí og voru þær að yfir 90% aðspurða telja að fjölmiðlamönnum beri að upplýsa viðmælendur sína um hljóðritun áður en hún hefst. Þessi afstaða nýtur yfirgnæfandi stuðnings í öllum hópum. Meðal kvenna og yngsta aldurshópsins nýtur hún um 96% stuðnings.
Hvað segir formaður Blaðamannafélagsins um þessar niðurstöður? Hvernig líst honum á þessa afstöðu „fólksins“?