Miðvikudagur 22. júlí 2015

Vefþjóðviljinn 203. tbl. 19. árg.

Undanfarna daga hefur verið sagt frá því að Hessine Habre, fyrrverandi forseti Afríkuríkisins Chad, hefði verið ákærður fyrir „glæpi gegn mannkyni“, eins og það er kallað í íslenskri þýðingu. Þessum fréttum hefur oft fylgt, til dæmis oftar en einu sinni í Ríkisútvarpinu, að Habre hafi verið kallaður „Pinochet Afríku“.

Það er alveg rétt, hann hefur verið kallaður þetta. Engu logið þarna. En menn hafa raunar verið kallaðir margt, og ekki aðeins menn. Þannig var „fréttaþátturinn Spegillinn“ opinberlega kallaður Hljóðviljinn vegna mikillar vinstrislagsíðu á þættinum. Sá sem kallaði þáttinn þetta var hvorki meira né minna en þáverandi útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins, en hann lagði samt ekki í að vinda ofan af slagsíðunni, enda þora fáir í stríð við þá sem í raun stjórna Ríkisútvarpinu. Núverandi yfirvöld menntamála þora til dæmis engu gagnvart þeim, og reyna eins og þau geta að ausa í þá opinberu fé, í von um að beina reiði þeirra eitthvert annað.

En uppnefnið á Hessine Habre, sem fjölmiðlamenn um víða veröld nota á hann, er skemmtilega athyglisvert. Fjölmiðlamönnum dettur ekki í hug að kalla hann Castro Afríku, eða Che Guevara Afríku. Þeir líkja honum ekki við Gaddafí eða Nasser, Ho Chi Minh eða Pol Pot. Nei, alltaf Pinochet.

Hvers vegna ekki Castro? Þeir Castro-bræður stýra þó enn Kúbu. Náðu völdum í blóðugri byltingu fyrir  meira en hálfri öld og  hafa stjórnað landinu með harðri hendi síðan. Che var sérstakur böðull kommúnistastjórnarinnar. Vestrænr fjölmiðlar munu seint flokka þessa menn með harðstjórum. Vinstrimenn ganga um með húfur með mynd af Che. Þeir prenta myndir af eigin leiðtogum í Che-gervi og selja stuðningsmönnum sínum.

Harðstjórar verða sjaldan uppnefndir með Che og Castro-nöfnum. Og Pinochet, sem raunar lét af völdum eftir að hafa tapað þjóðaratkvæðagreiðslu sem hann hélt um áframhaldandi völd sín, hans er ekki minnst á derhúfum og nærbolum eins og ýmissa annarra harðstjóra. En menn muna þó eftir honum þegar þarf að skensa Hessine Hebre.