Vefþjóðviljinn 196. tbl. 19. árg.
Þegar læknar áttu í kjaradeilu fyrir stuttu fylltust fjölmiðlar af frásögnum um skelfilegt ástand á spítölunum. Það voru næstum engin tæki til og þau sem voru til voru biluð. Skortur var á öllu, aðbúnaðurinn var skelfilegur. Þegar stjórnvöld létu loks undan var stutt í fréttina um að Landspítalinn ætti aðeins einn plástur sem sjúklingar skiptust á um að nota.
En svo var samið og þessar látlausu fréttir hurfu.
Nýlega lauk verkfalli nokkurra annarra stétta á spítölunum með lagasetningu. Síðan hafa fjölmiðlar flutt fréttir af uppsögnum starfsmanna eða af starfsmönnum sem eru með „uppsagnarbréfið í vasanum“.
Fjölmiðlamenn eru mjög fundvísir á þetta. Þeir virðast frétta af næstum hverri uppsögn um leið og henni er skilað inn. Áhuginn er svo mikill að þetta minnir helst á þegar starfsmönnum Ríkisútvarpsins er sagt upp, skömmu áður en þeir eru ráðnir aftur sem verktakar.
En eru þessar uppsagnir eins fréttnæmar og fréttamenn láta?
Já auðvitað, segir eflaust einhver. Það er stórmál ef spítalarnir fá ekki starfsfólk.
Það er vissulega rétt, en segja þessar uppsagnir eitthvað um það?
Fyrir venjulegan launþega er stórmál að segja upp starfi sínu, ef hann hefur ekki að einhverju öðru að hverfa. En það er ekki endilega sama sagan á spítölunum.
Spítalana vantar alltaf starfsfólk. Og hafa úr takmörkuðum hópi að spila, svo lengi sem þeir auglýsa ekki víðar en hér á landi.
Starfsmaður sem segir upp, með þriggja mánaða uppsagnarfresti, getur auðvitað afturkallað uppsögnina. Spítalinn tæki því fagnandi. Ef margir segja upp í einu er spítalanum heimilt að framlengja uppsagnarfrestinn um þrjá mánuði í viðbót. Uppsögnin tæki því ekki gildi fyrr en hálfu ári eftir að sagt var frá henni í fréttum. Ef starfsmaður, sem segir upp núna, ætlar sér í raun ekki að láta af starfinu heldur vill eingöngu þrýsta á um kjarabætur, getur hann sótt um starfið aftur ef það verður á endanum auglýst, og myndi vafalaust fá það.
Það er því ekki endilega sama fórnin, eða sama áhættan, fyrir starfsmann á spítala að segja upp starfi eins og það væri hjá manni sem vinnur hjá hefðbundnu fyrirtæki.
Þar með er ekki sagt að starfsmannamál spítalanna geti ekki verið fréttnæm. Það væri til dæmis fréttnæmt ef þeir sem nú hafa sagt upp, hefðu jafnframt ráðið sig til starfa á erlendu sjúkrahúsi og undirbúið flutning úr landi. En skyndilegar mörg hundruð manna uppsagnir, sem hvenær sem er má hætta við, eru ekki endilega eins fréttnæmar og margir halda.