Mánudagur 13. júlí 2015

Vefþjóðviljinn 194. tbl. 19. árg.

Það eru gömul sannindi og ný að elítan í Brussel, þeir sem fara fyrir Evrópusambandinu, hafa fyrst og fremst eitt í huga, hvernig sem á stendur: Drauminn um evrópska stórríkið. Hann er alltaf á bak við, hvaða ákvarðanir sem þarf að taka. Vegna hans vill yfirstjórnin í Brussel samræma allar reglur í aðildarlöndnum, langt umfram það sem þyrfti til að hafa sameiginlegan innri markað.

Þessi hugsun smitar út frá sér í alls kyns stofnanir á meginlandinu, sem sífellt ganga lengra til að knýja fram áframhaldandi samruna.

Eitt stærsta skrefið sem stigið hefur verið til að knýja samruna ríkjanna fram var stofnun „sameiginlegs gjaldmiðils“. Fyrir honum voru pólitísk rök miklu frekar en hagfræðileg. Það er engin nauðsyn að Þýskaland, Ítalía, Grikkland og Eistland, svo dæmi séu tekin, noti sama opinbera gjaldmiðilinn, jafnvel þótt menn vilji hafa opinberan gjaldmiðil. Evran var ekki tekin upp til þess að bæta hag almennra borgara í ólíkum „evrulöndum“. Hún var tekin upp til þess að þrýsta samrunaþróuninni áfram. Þeir sem ákváðu að taka hana upp vissu að sameiginlegur gjaldmiðill hinna mjög ólíku ríkja myndi kalla á alvarleg vandamál. Þau vandamál átti svo að nýta til að ná meira og meira fullveldi af aðildarríkjunum.

„Falli evran, fellur Evrópa“, segja samrunamenn í sífellu, í þeirri von að fólk taki evrunni sem óbreytanlegum hlut sem ylli heimsendi ef hann hyrfi. Frakkar notuðu franka í sexhundruð ár en þeim er sagt að án evrunnar fari allt í kaldakol. Sama er Þjóðverjum sagt og þetta hefur verið nefnt við Grikki.

Elítan í Brussel má ekki til þess hugsa að Grikkir kasti evrunni. Þá gæti það óhugsandi einmitt gerst: Þeim gæti farið að ganga betur. Og hvar, annars staðar en á Bifröst, verður þá trúað söngnum um það hve evran er nauðsynleg og mikið stöðugleikatákn?