Vefþjóðviljinn 193. tbl. 19. árg.
Pétur H. Blöndal var óvenjulegur alþingismaður og líklega óvenjulegur maður einnig.
Hann var ekki aðeins þjóðkunnur að því að fara sjálfur vel með og vera um leið óspar á heilræði um slíkt til annarra. Pétur gætti einnig hagsmuna skattgreiðenda á þingi í tvo áratugi. Hann var fljótur að marka sér bás sem slíkur eftir að hann settist á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík árið 1995.
Alltof margir þingmenn líta á fjárlög líðandi árs sem nokkurs konar upphafsreit fyrir fjárlög næsta árs. Það er eins og menn átti sig ekki á því að útgjöld þetta árið þarf ekki að endurtaka það næsta og næsta og næsta heldur er þetta sjálfstæð ákvörðun á hverju ári. Hið sama gildir um tekjurnar, skattana. Skattur sem einu sinni var ákveðinn 2% en er nú orðin 24% þarf ekki að hækka í sífellu, hann má líka lækka frá fyrra ári eða jafnvel afnema. Fjárlögin eiga ekki að vera hringekja sem hagsmunahóparnir stökkva á og hanga þar síðan til eilífðar. Fjárlögin eru ný lög á hverju ári.
Pétur áttaði sig ekki aðeins á þessu heldur hafði hann hæfileika og dugnað til að skoða fleira í fjárlagafrumvarpi hvers árs og í ríkisbúskapnum vítt og breitt en niðurstöðutöluna neðst á blaðinu. Hann gekk vasklega og ákveðið fram í þágu hins góða málstaðar hvort sem er úr ræðustóli þingsins eða í almennri þjóðmálaumræðu.
Í sínu fyrsta andsvari í umræðu um fjárlög á alþingi haustið 1995 sagði Pétur:
Það er í fyrsta lagi varðandi það að auka skuldir eilítið. Hér er verið að tala um að auka skuldir ríkissjóðs á næsta ári um 4 milljarða, það eru 16 þús. kr. á hvern einasta Íslending, litlu börnin og gamla fólkið meðtalið. Það eru 32 þús. kr. á hvern vinnandi Íslending og mér finnst það ekkert eilítið. Skuldirnar núna, hinar opinberu skuldir ríkissjóðs, eru 137 milljarðar, sem ég geri ráð fyrir að enginn maður geti ímyndað sér hvað er, ekki geri ég það, en það eru hálf milljón á hvern einasta Íslending, hálf milljón sem hið opinbera skuldar. Þetta eru ógreiddir skattar barnanna okkar. Ég á sex börn. Það eru 3 millj. á börnin mín. Takk fyrir. Það gef ég þeim í arf. Skuldirnar eru 1 millj. á hvern vinnandi Íslending. Ég kalla þetta ekki lítið. Ég kalla þetta uggvænlegt. Erlendar skuldir þjóðarinnar, og við skulum vona að fiskurinn bregðist okkur ekki, eru milljón á hvert mannsbarn. Þær eru 2 millj. á hvern vinnandi mann. Þetta er heldur ekki eilítið. Það er orðið mjög brýnt að við tökum á þessum vanda. Við verðum að herða sultarólina einhvers staðar. Þetta gengur ekki svona til lengdar.
Þessi orð voru í samræmi við það sem Pétur ráðlagði hverjum og einum svo oft í fjölmiðlum, hafið borð fyrir báru, safnið í sjóð til að mæta áföllum og safnið fyrir hlutunum í stað þess að taka lán. Það kemur að skuldadögum.
Þessar brýningar Péturs og sá hljómrunnur sem hann hafði í Sjálfstæðisflokknum og vítt og breitt um þjóðfélagið hafa vafalaust átt sinn þátt í því að á áratugnum eftir að hann settist á þing var markvisst unnið að því að grynnka á skuldum ríkissjóðs. Lægri skuldir, ekki síst í erlendri mynt, gerðu ríkissjóði mögulegt að mæta afleiðingum bankahrunsins 2008 með miklu skaplegri hætti en ella hefði orðið.
Pétur var lengi í forystu fyrir efnahags- og viðskiptamál í þinginu fyrir sinn flokk. Sú spurning vaknar eðlilega hvers vegna hann hafi aldrei orðið ráðherra. Þar munar sjálfsagt mestu að nær allan þingferil Péturs voru helstu forystumenn Sjálfstæðisflokksins úr Reykjavíkurkjördæmi líkt og hann. Hefð er fyrir því að ráðherrastólarnir dreifist að einhverju leyti á forystumenn kjördæmanna sem í tilviki Reykjavíkur voru formaður og varaformaður flokksins. Um leið var uppi krafa um aukinn hlut kvenna í ríkisstjórn. Pétur naut virðingar og trausts innan Sjálfstæðisflokksins en hann náði aldrei allra efstu sætum í prófkjöri og hann var ekki heldur kona.
Í síðustu ræðu sinni á alþingi ræddi Pétur um innstæðutryggingar og vandann sem fylgir því að ríkisvaldið skipti sér af þeim efnum.
[Ráðherra] sagði að sjóðirnir gætu verið étnir upp. Það er enginn viðtengingarháttur þar, þeir verða étnir upp þó að það sé mínimal eða lítið tjón Ef jafnvel einn sparisjóður fer á hausinn og eigið fé dygði ekki fyrir innstæðum þá eru 14 milljarðar ekki neitt neitt til að bæta upp það tjón. Þá kæmi strax í ljós að þetta er gerviveröld, það er verið að veita gervitryggingu og innstæðueigendur fengju ekki neitt. Eins og margt annað sem Evrópusambandið kemur með — margt kemur gott frá Evrópusambandinu, en margt er til að búa til einhvers konar gerviveröld, búa til öryggi sem ekki er til eða til að sýnast, búa til öryggi sem ekki er til. Innstæðutryggingakerfið er mjög augljóst dæmi um það. Það gengur vel á meðan ekki gerist. En um leið og hið minnsta gerist, ef banki fellur með 20%, 30% markaðshlutdeild í viðkomandi landi sem er mjög víða í Evrópusambandinu þá er þetta engin trygging.
Þá er spurningin: Hvað gerist þá? Munu menn bara horfa á sparifjáreigendur éta upp innstæðutryggingarsjóðinn og hann hverfur og engin leið að bæta það og hvað svo? Á ríkið þá að sitja hlutlaust hjá og gera ekki neitt? Ég er ansi hræddur um að krafa verði um það, fyrst þetta heitir innstæðutryggingar og er sett af ríkisvaldinu, að ríkið hlaupi til. Í nýju tilskipununum sem á að innleiða í haust er m.a. gert ráð fyrir að borgað sé út innan sjö daga. Hver á að brúa bilið þessa sjö daga? Hver á að veita skammtímalán annar en ríkið?
Það er afskaplega verðmætur eiginleiki alþingismanns fyrir hinn almenna mann að þingmaðurinn greini áhættuna sem felst í alls kyns lagasetningu. Hverjar eru hinar duldu skuldbindingar? Hver situr uppi með reikninginn þegar allt fer á versta veg? Þótt það spilli auðvitað ekki fyrir að vera einn fremsti tryggingastærðfræðingur landsins er þetta nokkuð sem miklu fleiri þingmenn gætu tileinkað sér.
Sem fyrr segir var Pétur kunnur fyrir áhersluna á búhyggindi. Það voru talsverð tíðindi hér á bæ, nokkru eftir að þetta litla vefrit hóf að koma út, er því barst orðalaust vegleg hvatning frá hinum hagsýna þingmanni. Það er stundum sagt að það sé sama hvaðan gott kemur, en þetta var undantekning frá því. Það fylgdi því sérstakur heiður að maður sem var svo kunnur að elju sinni fyrir því að hver króna væri vel og vandlega nýtt legði útgáfunni lið.
Þegar útgáfan barst í tal við Pétur í gegnum tíðina hafði hann hins vegar aðeins eitt ráð. Haldið ykkar striki en hafið skrifin alls ekki of löng.
Það má víða spara.